149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er kúnstugt að hlusta á þennan málflutning í ljósi þess að fulltrúar flestra, ef ekki allra flokka, hafa talað fyrir því að veiðigjöld eigi að endurspegla afkomu, að fulltrúar flestra ef ekki allra flokka hér á þingi hafa talað fyrir því að það sé eðlilegt að miðað sé við að álagning sé nær í tíma en verið hefur. Og hér er verið að gera einmitt það, að færa álagninguna nær í tíma og miða hana við afkomu. Um það er búið að fjalla á 13 fundum í hv. atvinnuveganefnd og fá fjölda gesta, en þá er talað eins og þetta sé óvænt hugmynd sem keyrð sé í gegn.

Ég ætla að nota tækifærið hér til að þakka hv. atvinnuveganefnd og formanni hennar fyrir að hafa einmitt fjallað ítarlega og vandlega um þetta mál sem skiptir máli. Hér er verið að leggja til 33% gjaldhlutfall plús viðbótarálag á uppsjávarfisk. Þegar afkoman batnar mun það skila sér í hærri veiðigjöldum og þegar afkoman versnar mun það skila sér í lægri veiðigjöldum. Þetta er satt að segja grunnhugmynd sem ég taldi vera allgóða samstöðu um (Forseti hringir.) á Alþingi eftir að hafa fylgst með þessari umræðu allt frá árinu 2012 þegar við settum fyrst sérstaka veiðigjaldið á.

Herra forseti. Ég tel að þetta sé mikið framfaraskref og að góð vinna hafi farið fram, bæði af hálfu ráðherra og atvinnuveganefndar í þessu máli.