149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þessu máli er að ljúka og í góðu lagi þótt það gerist ekki í sátt. Stundum eru mál þannig vaxin að ekki verður um þau einhugur í þinginu. Þetta er mál sem kom fram í september, það var mælt fyrir því þá. Samt er talað hér eins og það hafi ekki verið haft neitt samráð.

Menn sem leggjast gegn málinu segja að ríkið verði af réttlátum hlut en í málflutningi þeirra sem tala þannig er alveg augljóst að þeir ætla að skammta ákveðna krónutölu sem hefur ekkert með afkomu útgerðarinnar að gera. Það á bara að vera einhver föst krónutala sem ávallt á að skila af sér. Um slíkt verður aldrei nein sátt. Það er sanngjarnt og eðlilegt að gjaldið endurspegli afkomu greinarinnar og með þessum lögum mun gjaldið gera það betur en á við í dag vegna þess að gjaldið endurspeglar betur rauntímaafkomu. Besti mælikvarðinn á það hvort þetta mál er gott mál og til framfara borið saman við gildandi lög og reglur verður þessi hér: Mun einhverjum detta í hug að hverfa aftur til gamla kerfisins? Svarið við því er augljóst: Nei.