149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um veiðigjöld, ekki fiskveiðistjórnarkerfið eins og flestallar tillögur minni hlutans snerust um við 2. umr., fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur skapað okkur þá stöðu með sjávarútveg okkar í heiminum að hann er í fararbroddi. Umræðan á Íslandi allt frá árunum 2010/2011 hefur verið um það hversu miklar álögur við getum sett á sjávarútveginn á meðan í allflestum öðrum löndum, jafnvel stórum sjávarútvegslöndum eins og Noregi, snýst umræðan um hversu mikið þarf að greiða með sjávarútveginum.

Ég hef tekið þátt í þessari umræðu frá upphafi. Ég lagði fram frumvarpið sem var úrelt að mínu mati þegar ég lagði það fram. Okkur vantaði hins vegar upplýsingar til að geta sett þetta fram í rauntíma. Ég fullyrði að frumvarpið sem við erum að fara að samþykkja hér, og ég hvet alla til að gera það, er framfaraskref. Það er skynsamlegt, það tekur á afkomunni. Við þurfum að hafa samkeppnishæfa útgerð hringinn í kringum landið. Gjaldið er að stærstu leyti greitt, yfir 80%, af landsbyggðinni. Mörg fyrirtækin þar þola ekki (Forseti hringir.) hærra gjald. Hér getum við haldið áfram að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar, útgerðarinnar og haldið uppi byggð í landinu.

Ég segi já.