149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að vera að afgreiða málið á þann hátt að um það hafi náðst niðurstaða sem við getum staðið keik með. Ég skal ekki dylja að ég hefði viljað ganga lengra í því að lækka þessar álögur. Ég ætla að minna á og ég dró það fram í umræðu um bæði fjárlögin og þetta mál að sveitarfélög í Norðvesturkjördæmi hafa með mjög vönduðum og ítarlegum hætti látið greina afkomu sjávarútvegsfyrirtækja innan kjördæmisins. Ég vil minna á það við þessa atkvæðagreiðslu og hvetja hæstv. sjávarútvegsráðherra og hv. formann atvinnuveganefndar til að gefa þeim útreikningum gaum. Ég er hræddur við þá þróun sem er að gerast í kjördæmi mínu, við það hvernig þessi gjöld leggjast á mikilvæg fyrirtæki fyrir byggðina. Það er full ástæða fyrir okkur til að halda vöku okkar en þetta er góður áfangi og ég fagna honum.