149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem við greiðum atkvæði um sníður marga meinbugi af innheimtu á veiðigjöldum og þess vegna mun ég geta stutt það. Það verður aldrei hægt að sníða alla meinbugi af því sem innheimtir aukaskattlagningu á þessa atvinnugrein en ég held þó að við séum á réttri leið varðandi fyrirkomulagið. Sá stóri meinbugur er enn þá á að gjaldið er of hátt. Það getur vel verið að hagur nokkurra stórra sjávarútvegsfyrirtækja sé að lagast en öll hin mörg hundruð litlu og meðalstóru sjávarútvegsfélögin sem skapa þjóðinni arðsemi með starfsemi sinni í byggðum landsins standa ekkert of vel. Þess vegna verðum við að fylgjast með þeim áhrifum sem þetta háa gjald hefur, svo að arðsemin dragist ekki saman hjá íslenskri þjóð af auðlindinni, af því að öflugur sjávarútvegur skilar mestu arðseminni. Það skulum við hafa á hreinu. Það er ekki verið að lækka veiðigjöldin, sama hvernig þetta er reiknað út. Ef það væri reiknað út eftir hag veiða og vinnslu fyrir árið 2017 yrðu veiðigjöldin á næsta fiskveiðiári 2,5 milljarðar.