149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. 33%. Hvaðan kom sú tala? Hver ákvað hana? Og hvers vegna? Af hverju átti sér ekki stað samtal og samráð um hversu hátt hlutfall arðs af auðlindinni þjóðin ætti að fá? Hvers vegna er fiskvinnslan tekin út úr gjaldstofni veiðigjalds þrátt fyrir augljósar hættur sem því fylgja?

Samtalið og samráðið um þessi atriði hefðu mátt hefjast á þessum spurningum: Hver ætti hlutdeild þjóðarinnar af arði af auðlind hennar að vera?

Við fengum aldrei að taka þátt í slíku samtali. Það var ákveðið fyrir okkur. Þetta er nú samráðsleysið sem við erum að kvarta yfir. Það er heldur ekki skrýtið að maður álykti út frá þessu að ríkisstjórnin hafi gefið sér einhverja ákveðna tölu sem hún vildi fá í veiðigjöld og reiknað sig svo til baka út frá því, því að engar (Forseti hringir.) haldbærar skýringar hafa fengist á þessari prósentutölu. Skoðun okkar á henni var ekki fengin áður en þetta var lagt fram.