149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er svolítið kúnstugt að hlusta á sér í lagi þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala um hið hræðilega ár 2017 og hversu slæm afkoma greinarinnar hafi verið þá og það sé gott að það komi ekki til gjalda. Það er ágætt að hafa það í huga að greinin fór í gegnum langt verkfall á þeim tíma. Ég hygg að hv. þingmenn hljóti að vera mér sammála um að það er ekki hlutverk ríkisins að niðurgreiða verkfallskostnað atvinnulífsins með skattalækkunum, hvað þá veiðigjaldalækkunum. (ÓBK: En tekjuskatt?)

Samráðsleysið í þessu máli stendur eftir. Ríkisstjórnin lagði af stað með þessa aðferðafræði ein og óstudd. Það er ekki einu sinni til útreiknings á næsta ári því að slumpað er á einhverja tölu fyrir næsta ár og síðan byggt á meingölluðum mælikvörðum sem margir hverjir eru áætlaðar stærðir og tölur inn í framtíðina. Þetta er það sem ríkisstjórnin hrósar sér yfir og óttast um leið mjög hið einfaldasta í stöðunni, að láta markaðinn ráða, að leyfa fyrirtækjunum að bjóða í þessar veiðiheimildir og verðleggja þannig veiðigjöldin sjálf. En það má auðvitað ekki hugsa til svo róttækra breytinga hjá þessari afturhaldsstjórn.