149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:54]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar ég var fyrir mörgum árum að lesa um íslenskar bókmenntir við Háskóla Íslands var þar eitt hugtak sem var algengt, það voru smælingjasögur. Við lásum margar smælingjasögur. Þær fjölluðu yfirleitt um einstæðing sem enginn var góður við og hraktist á milli alls staðar og átti ekkert og fékk ekkert. Þetta voru mjög sorglegar sögur, en þó verð ég að segja að þær voru ekki jafn átakanlegar og smælingjasagan sem maður fær að heyra á Alþingi um hag útgerðarinnar og hvernig við séum að rétta hlut þessa vesæla smælingja og hrakta einstæðings sem útgerðin á Íslandi sé. Í því sambandi er allt í lagi að rifja upp að á síðasta ári greiddi útgerðin sér arð upp á 23 milljarða. (Gripið fram í.)

Sagt er að hér sé ekki verið að lækka veiðigjöld. Það má vel vera að ekki sé verið að lækka veiðigjöld. Það er hins vegar verið að grípa til aðgerða sem munu leiða til þess að veiðigjöld lækka.