149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Bara til áréttingar, þar sem þetta var svona skelfilegt ár í fyrra hjá útgerðinni, þá greiddu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki út hærri arðgreiðslur á árinu 2017 en þau hafa nokkru sinni gert áður. Alls fengu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja 14,5 milljarða kr. greiddan í arð á árinu vegna frammistöðu ársins á undan, og með leyfi forseta, í lokin:

„Frá árinu 2010 hafa arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna numið 80,3 milljörðum króna. Frá hruni hefur eiginfjárstaða sömu fyrirtækja batnað um 341 milljarða króna, og þar af batnaði hún um 41 milljarð króna í fyrra“ á þessu skelfilega og ömurlegu ári.

Maður spyr sig: Hvenær er það sem við eigum að líta inn á við og skoða t.d. að verðmæti útflutnings hefur aukist um 20% á árinu 2018? Hvernig er það verjandi að halda því fram að útgerðin eigi í vök að verjast? Það er alrangt og eins og venjulega er forgangsröðunin algjörlega standandi á haus.