149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Með þessari tillögu gefum við þinginu tækifæri til að fara yfir ýmsa annmarka sem við höfum vakið athygli á í þingsal og til að gefa okkur tækifæri til að bæta úr þeim. Sömuleiðis erum við að færa ríkisstjórninni u.þ.b. 4 milljarða til að taka á hinum ýmsu vandamálum sem hún hefur þurft að fresta að taka á vegna einhvers fjárskorts eða viljaleysis til að afla sér tekna hingað til. Þar mætti m.a. skoða hvers vegna sú leið er farin að taka vinnsluna út úr samþættum útgerðum, eitthvað sem hefur ekki verið útskýrt með afgerandi hætti. Vonandi getur hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála komið hingað upp og bent mér á frekari lesefni í þeim málum, mögulega til að útskýra hvaðan sú breyting kemur vegna þess að það eina sem ég finn í greinargerð frumvarpsins hvað það varðar er einhver hallærislegasti bleikþvottur sem ég hef á ævi minni séð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)