149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vona að það hafi komið skýrt í ljós að við í Viðreisn erum mótfallin því frumvarpi sem ríkisstjórnin leggur fram. Við komum með þessa breytingartillögu í samfloti með félögum okkar í Flokki fólksins, Samfylkingunni og Pírötum. Hér hefur komið skýrt fram gagnrýni á þá orðræðu að þetta mál sé unnið í hinni mestu sátt í atvinnuveganefnd og að þar hafi bæði umsagnaraðilar sem nefndarmenn verið sammála um málið. Þvert á móti komu fram ákveðnar efnislegar athugasemdir sem eru m.a. grundvöllurinn fyrir þeirri kröfu okkar að gengið verði frá breytingartillögu þannig að ráðrúm gefist í eitt ár, að þetta verði framlengt óbreytt og að gefinn verði tími til að fara yfir málin, svara þessari gagnrýni og leggja meiri vinnu í efnislega útreikninga á þeim kostnaði sem kemur til frádráttar áður en gjaldið er lagt á.

Síðast en ekki síst nefni ég aftur nýgenginn dóm Hæstaréttar sem kollvarpar ákveðnum hugmyndum og (Forseti hringir.) heggur undan þau rök að ekki eigi að ræða veiðigjöld samhliða fiskveiðistjórninni. Þetta er efnislega samofið og er fullkomlega eðlilegt að þetta sé rætt saman vegna þess að það sem hér liggur undir er eignarréttur íslenskrar þjóðar.