149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Hér er verið að breyta því tæki sem við höfum og notum til að tryggja þjóðinni sanngjarna hlutdeild fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar sinnar. Það er verið að færa þetta nær í tíma. Það er verið að afkomutengja þetta. Það er vel og er mjög í takt við það hvernig hefur verið talað um þau mál í pólitík síðustu árin, þó að sumir tali öðruvísi núna. Ég er mjög ánægður með þá samstöðu sem náðist innan meiri hluta hv. atvinnuveganefndar um að koma sérstaklega til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er þannig að þegar reksturinn er minni skipta 2 millj. kr., svo dæmi sé tekið, eða 2,4 millj. kr., gríðarlega miklu máli í rekstrinum, upphæð sem skiptir stærri fyrirtæki litlu sem engu. Hér er því sérstaklega komið til móts við viðkvæm fyrirtæki sem eru mjög víða um landsbyggðina. Ég er mjög ánægður með að okkur hefur tekist að ná því ákvæði inn.

Ég segi já.