149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[15:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi. Mig langar til að koma hingað upp og vekja athygli á því að þetta er einkennilegur tímapunktur núna, að standa hér og ræða þetta mál, að samþykkja dagdvöl í hjúkrunarrýmum fyrir þá sem eru yngri en 67 ára, ef þörf krefur vegna heilsufars, á sama tíma og gríðarleg þörf er fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma, á sama tíma og nýsamþykkt fjárlög kveða á um 1 milljarðs niðurskurð í uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Skal haldið því til haga að þar er um að ræða hálfs milljarðs hreinan niðurskurð, en hálfur milljarður er jú hugsaður sem niðurskurður á milli fjárlagaútgáfa.

Ég hef áhyggjur af því að verði þetta samþykkt muni það hafa áhrif til hins verra fyrir þann fjölda fólks sem fyrir aldurs sakir og vegna heilsubrests vegna aldurs bíður vistar eftir hjúkrunarrýmum. Ég hefði óskað þess (Forseti hringir.) að heyra fjallað um þetta mál í stóru myndinni.