149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér hafa komið fram sjónarmið um að á landsbyggðinni séu jafnvel engin önnur úrræði fyrir fatlaða einstaklinga en að fara í dvalarrými. Ég velti fyrir mér hvers konar frjálst val felist í því að hafa það eina úrræði að setjast að í dvalarrými fyrir aldraða og hvers konar val það teljist eiginlega ef viðkomandi vill vera áfram í sínu byggðarlagi.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir líka mjög skýrt að ekki megi mismuna fötluðu fólki á grundvelli búsetu og þar með talið hvers konar þjónustu þeir eiga rétt á og því að þeir eigi rétt á að lifa sjálfstæðu lífi. Valfrelsi, gerhæfi fatlaðra einstaklinga ætti að vera í hávegum haft.

Ég virði það við hæstv. heilbrigðisráðherra að ekki eigi að stíga yfir mörk þegar kemur að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en okkur greinir á um þessi efni. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég hvetja ríkisstjórnina og þingið allt til dáða til að samþykkja þessa valfrjálsu bókun. Þar fáum við sérfræðinefnd sem getur skorið úr um hvor okkar hefur rétt fyrir sér.