149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[15:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um þungunarrof. Frumvarpið er samið í velferðarráðuneytinu. Forsaga þess er í stuttu máli sú að þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skipaði í mars 2016 nefnd sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun laga nr. 25/1995, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu í nóvember 2016 og lagði m.a. til að lögunum yrði skipt upp.

Mæli ég því hér fyrir frumvarpi til sérlaga um þungunarrof. Er frumvarpið sem nú er lagt fram í megindráttum í samræmi við tillögur nefndarinnar.

Megintillaga nefndarinnar var að gera ætti breytingar á löggjöfinni þannig að lög tryggðu sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Með það að leiðarljósi lagði nefndin til að þungunarrof yrði gert frjálst að beiðni konu fram að lokum 22. viku þungunar. Nefndin lagði einnig til að orðanotkun yrði breytt og orðið þungunarrof yrði notað í nýrri löggjöf. Þungunarrof er heiti yfir það þegar rof er gert á þungun konu að hennar beiðni, annaðhvort með læknisaðgerð eða lyfjagjöf. Hingað til hefur umrædd læknisaðgerð verið kölluð fóstureyðing í lögum, en nú er lagt til að þeirri orðanotkun verði hætt og hugtakið þungunarrof komi í þess stað. Hugtakið fóstureyðing hefur verið talið gildishlaðið og sambærileg orðanotkun þekkist ekki í nágrannalöndum okkar.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að reifa stuttlega sögulegt samhengi þessa máls.

Allt til ársins 1935, þegar fyrstu lögin um fóstureyðingar voru sett, giltu ákvæði hegningarlaga frá árinu 1869 sem bönnuðu alfarið fóstureyðingar að viðlagðri allt að átta ára hegningarvinnu. Einu gilti þótt lífi eða heilsu konu væri stefnt í hættu með áframhaldandi meðgöngu eða fæðingu og samkvæmt lögum voru hendur lækna bundnar. Þeim var óheimilt að hjálpa konum við þessar aðstæður. Ljóst er að farið var í kringum lögin á þeim tíma og þau brotin.

Í kjölfar mikillar umræðu um þessi mál í samfélaginu samþykkti Alþingi lög nr. 38/1935, um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar. Færa má rök fyrir því, m.a. í sögulegu samhengi, að á Íslandi hafi ríkt nokkuð frjálslynt viðhorf til þungunarrofs. Lögin voru eftir því sem næst verður komist þau fyrstu í heiminum sem heimiluðu þungunarrof á grundvelli félagslegra aðstæðna. Voru ófrjósemisaðgerðir á konum einnig heimilaðar í tilvikum þar sem konum stafaði lífshætta eða önnur mjög mikil sjúkdómahætta af því að verða barnshafandi eða í tilvikum þar sem um minni hættu væri að ræða en gera mætti ráð fyrir að kona yrði iðulega barnshafandi. Var þannig frá upphafi hér á landi kveðið á um ófrjósemisaðgerðir kvenna í sama lagabálki og um þungunarrof. Með frumvarpi þessu er lagt til að fjallað verði um þessar heimildir í aðskildum lögum.

Rúm 40 ár eru liðin frá því að gildandi lög um þungunarrof voru samþykkt á Alþingi. Má í raun segja að niðurstaða þingsins á þeim tíma hafi verið málamiðlun þegar litið er til þess frumvarps sem lagt var fram á Alþingi árið 1973 og byggðist á því að virða ætti sjálfsákvörðunarrétt kvenna til að taka ákvörðun um barneignir.

Í frumvarpinu var lagt til að þungunarrof yrði frjálst að beiðni konu fram að lokum 12. viku þungunar. Frumvarpið mætti mikilli andstöðu og varð úr að þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði þriggja manna nefnd, sem nánar tiltekið var skipuð þremur karlmönnum, sem gera átti breytingar á frumvarpinu með það fyrir augum að meiri líkur væru á að það yrði samþykkt á Alþingi. Breytingarnar voru þess efnis að dregið var úr heimildum kvenna til að taka sjálfar ákvörðun um þungunarrof, takmarkanir settar fyrir heimildunum og vald til ákvarðanatöku var fært að hluta til í hendur tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa.

Mig langar að fara aðeins yfir þau ákvæði gildandi laga sem sætt hafa gagnrýni og ástæður þess að ég tel mikla þörf á að setja ný lög með það að markmiði að sjálfsforræði kvenna til ákvarðanatöku um eigin líkama verði tryggt. Þau ákvæði sem sætt hafa hvað mestri gagnrýni eru ákvæði 9., 10. og 11. gr. gildandi laga. Þessi lagaákvæði innihalda ýmiss konar skilyrði sem öll eru til þess fallin að takmarka sjálfsforræði kvenna varðandi ákvarðanatöku um þungunarrof. Í 9. gr. laganna eru skilyrði þess að kona geti fengið þungun sína rofna tilgreind. Skilyrðin eru þrenns konar: Það eru félagslegar ástæður, læknisfræðilegar ástæður og þegar þungun kemur til vegna nauðgunar eða annarrar refsiverðrar háttsemi. Við mat á félagslegum ástæðum skal tekið mið af því hvort konan hafi alið mörg börn með stuttu millibili og skammt sé frá síðasta barnsburði, hvort konan búi við bágar heimilisaðstæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu, að konan geti ekki vegna æsku eða þroskaleysis annast barn á fullnægjandi hátt, eða um sé að ræða ástæður sem eru fyllilega sambærilegar framangreindum ástæðum.

Þessi upptalning endurspeglar ekki þær aðstæður sem flestar konur sem óskað eftir þungunarrofi standa frammi fyrir í dag. Enn fremur fela skilyrtar heimildir til þungunarrofs með vísan til félagslegra ástæðna í sér ákveðna lítilsvirðingu og eru til þess fallnar að valda hlutaðeigandi konum aukinni vanlíðan, því að við skulum átta okkur á því og muna að ákvörðun um að rjúfa þungun er og verður konum sem standa í þeim sporum alltaf erfið. Sú ákvörðun verður alltaf þungbær.

Í þessu ljósi og af þessum ástæðum legg ég til í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir að hver sú kona sem telur sig knúna til þess að óska eftir þungunarrofi, hver svo sem ástæðan þar að baki er, ráði þeirri ákvörðun alfarið sjálf. Aftur á móti verði henni boðinn og veittur og tryggður sá stuðningur sem hún telur sig þurfa, bæði fyrir og eftir að þungunarrof hefur verið framkvæmt.

Undir læknisfræðilegar ástæður samkvæmt gildandi lögum falla tilvik þegar ætla má að líkamlegri eða andlegri heilsu sé hætta búin af áframhaldandi meðgöngu og fæðingu sé hætta talin á að barn fæðist vanskapað eða haldið alvarlegum sjúkdómi vegna erfða eða sköddunar á fósturlífi eða þegar geta foreldris til að annast og ala upp barn er talin verulega skert vegna líkamlegs eða geðræns sjúkdóms.

Hér skulum við staldra aðeins við og skoða skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Seinni tvær af þeim ástæðum sem gildandi lög heimila þungunarrof byggt á læknisfræðilegum ástæðum, verða að teljast nokkuð gagnrýniverðar, fyrst og fremst þegar litið er til 8. gr. samningsins sem fjallar um skyldur ríkja hvað varðar vitundarvakningu og til að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki. Ég tel í því samhengi óeðlilegt að veita í lögum rýmri heimildir til þungunarrofs vegna þess að hægt sé að leiða líkur að því að barn sem kona gengur með verði á einhvern hátt fatlað. Gildandi lagaákvæði hefur verið gagnrýnt hvað þetta varðar og ég tel brýnt og sjálfsagt að taka þá gagnrýni til greina, enda er það yfirleitt ekki fötlunin eða skerðingin sem slík sem gerir það að verkum að kona vill láta rjúfa þungun sína, heldur er það mat konunnar á aðstæðum sínum hverju sinni sem verður til þess að hún tekur ákvörðun um þungunarrof. Því má í raun færa rök fyrir því að þungunarrof sé alltaf byggt á mati á félagslegum ástæðum, nema í þeim fáu tilvikum sem lífi konu stendur hætta af þungun.

Sömu sjónarmið búa að baki gagnrýni á ákvæði laganna þar sem heimild byggir á því að ætla megi að sjúkdómur, líkamlegur eða geðrænn, dragi alvarlega úr getu konu eða manns til að annast og ala upp barn. Það er alveg skýrt í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að aðildarríkjum samningsins er skylt að veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna og því tel ég ekki rétt að útlista andlega eða líkamlega fötlun foreldris sem ástæðu fyrir rýmri heimild til þungunarrofs í lögum.

Ég tel víst að við getum öll verið sammála því að það skuli ætíð vera heimilt að framkvæma þungunarrof ef ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður liggja fyrir að um líf og heilsu konunnar sé að tefla. Í 2. mgr. 10. gr. gildandi laga er kveðið á um að fóstureyðing skuli aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans nema af slíkum ástæðum. Í sömu grein segir að fóstureyðing skuli einnig leyfileg eftir 16 vikur séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.

Í þessu samhengi minni ég á orð mín hér fyrr í ræðunni um 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og víðtækari heimildir sem byggja á því að fóstur teljist fyrirsjáanlega fatlað. Ég tel að með því að veita rýmri heimildir til að rjúfa þungun með þeirri skírskotun sem birtist í gildandi lögum sé verið að senda skilaboð um að fatlað fólk sé ekki jafn mikilvægt og það sem við kjósum að kalla heilbrigt fólk. Ég er því með öðrum orðum alfarið á móti því að löggjöf innihaldi flokkun á verðleika fóstursins. Slíkt er í mínum huga til þess fallið að viðhalda fordómum gagnvart fötluðu fólki og staðalímyndum um fatlaða einstaklinga sem er andstætt 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars með það í huga legg ég til að lögin geri engan greinarmun þegar kemur að beiðni konu um þungunarrof. Ákvörðunin er konunnar óháð því hvaða aðstæður búa að baki.

Krafa gildandi laga, og nú er ég að tala um ákvæði 11. gr., um að þungunarrof vegna félagslegra ástæðna sé ekki heimilt nema fyrir liggi skriflega rökstudd greinargerð tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa þess efnis, hefur einnig sætt mikilli gagnrýni. Í þessu felst að vilji konunnar og mat á eigin aðstæðum teljist ekki marktækt nema tveir heilbrigðisstarfsmenn séu henni sammála. Þannig er frelsi og öryggi konu í þessum aðstæðum í höndum einhvers annars en hennar sjálfrar. Ég tel að þetta ákvæði beri merki gamaldags forræðishyggju sem standist ekki nútímaviðhorf til mannréttinda og sjálfsforræðis einstaklinga og kvenfrelsis.

Virðulegi forseti. Þótt frumvarpið sem ég mæli hér fyrir sé ekki stórt í sniðum felur efni þess í sér mjög mikilvæg réttindi konum til handa, réttindi sem eiga að vera sjálfsögð þar sem þau snúast um rétt kvenna til að ráða sjálfar yfir líkama sínum og taka ákvarðanir um framtíð sína og öryggi. Markmið laganna er að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði laganna. Ákvæði laganna gilda um rétt kvenna til þungunarrofs sem og um framkvæmd þungunarrofs og heilbrigðisþjónustu vegna þess en ekki um tilvik þar sem um nauðsynlega læknismeðferð er að ræða, enda þótt fósturlát hljótist af. Þá gilda ákvæði laganna einnig um fósturfækkun.

Í lögunum er skýrt kveðið á um að konur eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita í tengslum við þungunarrof í samræmi við ákvæði laganna, laga um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og annarra laga eftir því sem við á.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir til þungunarrofs en þar er lagt til að heimilt verði að rjúfa þungun konu að hennar beiðni til loka 22. viku þungunar. Þá segir að þungunarrof skuli ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku. Með þessu eru ekki sett nein skilyrði fyrir heimildum til framkvæmdar þungunarrofs önnur en varðandi gæði þjónustunnar, þ.e. hver megi framkvæma þungunarrof og hvar. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram hvaða heimildir eru til þungunarrofs eftir lok 22. viku þungunar. Þá er þungunarrof einungis heimilt ef lífi konunnar er að öðrum kosti stefnt í hættu eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar. Staðfesting tveggja lækna skal liggja fyrir um að fóstur teljist ekki lífvænlegt til frambúðar.

Í 5. gr. er lagt til að heimilt verði að rjúfa þungun samkvæmt ákvæðum laganna hjá stúlku sem er ólögráða fyrir æsku sakir að hennar beiðni án þess að leitað sé eftir samþykki foreldra og forráðamanna. Þess ber að geta að umboðsmaður barna og dómsmálaráðuneytið lögðu ríka áherslu á að ákvæði þetta myndi standa í lögunum og byggðu afstöðu sína á stigvaxandi rétti barna til að hafa áhrif á eigið líf, sem endurspeglaðist m.a. í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins skal aðgangur að heilbrigðisþjónustu vegna framkvæmdar þungunarrofs vera tryggður í öllum heilbrigðisumdæmum landsins að lágmarki fram að lokum 12. viku þungunar. Þetta er gert með áherslu á jafnræði og til að konur í dreifbýli sem standa frammi fyrir þessum aðstæðum þurfi ekki að ferðast um langan veg og verða fyrir enn meira álagi og röskun á högum sínum en óhjákvæmilegt er þegar horft er til þeirra áhrifa sem þungunarrof hefur á líf kvenna almennt.

Í 7. og 8. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði annars vegar um framkvæmd þungunarrofs og hins vegar um fræðslu og ráðgjöf. Lagt er til að þungunarrof með læknisaðgerð skuli framkvæmt á sjúkrahúsi eða á heilbrigðisstofnun undir handleiðslu sérfræðings á sviði kvenlækninga. Er með þessu átt við öll þau þungunarrof sem krefjast frekara læknisfræðilegs inngrips en lyfjagjafar, svo sem svæfingar. Þá verði heimilt að framkvæma þungunarrof með lyfjagjöf á starfsstöðvum lækna sem landlæknir hefur eftirlit með fram að lokum 12. viku þungunar. Með þessu er átt við starfsstöðvar líkt og heilsugæslustöðvar, en einnig starfsstöðvar sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Áður en þungunarrof á sér stað skal hlutaðeigandi konu veitt fræðsla um áhættur samfara aðgerðinni. Mæli læknisfræðilegar ástæður gegn þungunarrofi skal fjallað um það sérstaklega. Ákveði konan engu að síður að undirgangast þungunarrof er gerð krafa um að slíkt skuli skráð í sjúkraskrá. Er horft til þess að hér gildi sambærilegar reglur og eiga við í tilvikum þegar sjúklingur hafnar meðferð. Sérstaklega er kveðið á um rétt kvenna til að fá stuðningsviðtal við heilbrigðisstarfsmann með nauðsynlega sérþekkingu, bæði fyrir og eftir þungunarrof. Öll fræðsla og ráðgjöf skal veitt á óhlutdrægan hátt og byggjast á gagnreyndri þekkingu með virðingu fyrir mannréttindum og með mannlega reisn að leiðarljósi. Þetta er afar mikilvægt þar sem ráðgjöf og fræðsla heilbrigðisstarfsmanna getur haft mikil áhrif á þær ákvarðanir sem kona tekur um þungunarrof, t.d. þegar líkur benda til fyrirsjáanlegrar fötlunar eða skerðingar. Krafa um að fræðsla og ráðgjöf skuli byggð á gagnreyndri þekkingu vísar til þekkingar sem er alþjóðlega viðurkennd í ljósi aðstæðna hverju sinni og byggist á rannsóknum, viðurkenndum aðferðum og reynslu. Með vísan til virðingar fyrir mannréttindum og mannlegri reisn er bæði átt við mannréttindi þeirra kvenna sem óska eftir þungunarrofi, en einnig annarra einstaklinga í samfélaginu, svo sem fatlaðs fólks, samanber 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Líkt og í gildandi lögum er í frumvarpinu kveðið á um að heilbrigðisþjónusta vegna þungunarrofs verði gjaldfrjáls fyrir allar konur sem eru sjúkratryggðar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Þá skal embætti landlæknis halda rafræna ópersónugreinanlega skrá yfir öll þungunarrof. Um brot gegn ákvæðum laganna skal fara samkvæmt almennum hegningarlögum og lögum um heilbrigðisstarfsmenn eftir því sem við á.

Umfangsmikið samráð var haft á öllum stigum þessa máls. Við upphaf vinnu nefndar um heildarendurskoðun laganna óskaði nefndin opinberlega eftir umsögnum um gildandi lög og bárust 27 umsagnir. Niðurstöður nefndarinnar byggðust að mörgu leyti á því sem fram kom í umsögnum fagaðila og er innihald umsagnanna rakið nokkuð nákvæmlega í frumvarpinu. Þegar frumvarpsdrög voru orðin nokkuð fullmótuð var haft samráð við hóp fagaðila og í framhaldi af því voru endurskoðuð drög að frumvarpi birt til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Í því ferli bárust 11 umsagnir frá stofnunum og félagasamtökum og 40 frá einstaklingum og eru þær raktar efnislega í frumvarpinu.

Ákall um að þungunarrof yrði gert heimilt að beiðni konu fram að lokum 22. viku þungunar var áberandi í fjölda umsagna sem bárust. Félag íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Landspítali, Ljósmæðrafélag Íslands, Femínistafélag Háskóla Íslands, Kvenréttindafélag Íslands og fjöldi sérfræðinga, m.a. á sviði heilbrigðisvísinda, lögðu þetta til með ítarlegum rökstuðningi sem hafður hefur verið að leiðarljósi við gerð þessa frumvarps.

Fagaðilar lögðu áherslu á tvennt. Flestir fagaðilar fjölluðu um að tilteknir fósturgallar greindust ekki fyrr en seint á meðgöngu um eða eftir 20 vikna sónarinn, og því væri mikilvægt að konur gætu tekið ákvörðun um þungunarrof fram að lokum 22. viku þungunar. Fagaðilarnir undirstrikuðu allir hve erfið ákvörðun þetta væri fyrir þær konur sem í hlut ættu og oft maka þeirra. Var það faglegt mat þeirra byggt á langri reynslu að það að takmarka þessi réttindi væri mjög slæmt skref. Aðrir fagaðilar vörpuðu ljósi á að afar mikilvægt væri að þungunarrof yrði heimilt sem lengst vegna þess að þær konur sem eru í hvað verstu félagslegu aðstæðunum eru oft einmitt þær konur sem ekki átta sig á að þær eru þungaðar fyrr en mjög seint, eiga erfitt með að nálgast þjónustu vegna þungunarrofs vegna þeirra aðstæðna sem þær eru í, mögulega í hjónabandi eða sambandi. Þetta gætu verið möguleg fórnarlömb heiðursglæpa, nauðgunar eða mansals. Sumar ættu erfitt með að nálgast þjónustuna vegna tungumálaörðugleika, þroskahömlunar eða annarra ástæðna.

Virðulegi forseti. Verði þetta frumvarp að lögum er um mikla breytingu að ræða sem er ætlað að tryggja konum sjálfsforræði yfir eigin líkama og eigin framtíð hvað barneignir varðar. Með þessari breytingu er ætlunin að tryggja konum öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu óski þær eftir þungunarrofi fram að lokum 22. viku þungunar. Hefur frumvarpið því fyrst og fremst aukin réttindi í för með sér fyrir konur.

Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins, en ég vil í lokin nefna nokkur atriði sem ég vonast til að umræðan hér í þingsal geti byggt á. Það er mikilvægt að halda staðreyndum þessa máls til haga. Sérfræðingar á sviði fæðingarlækninga mæla þroska fósturs í mánuðum, vikum og dögum. Til að í framhaldinu gæti engrar óvissu um þau viðmið sem til umfjöllunar eru þá er talað um lok 22. viku þegar kona er gengin 21 viku plús sex daga. Þannig er 22. vika vikan þar sem kona er genginn 21 viku plús engan dag fram að 21 viku og sex daga. Í frumvarpinu er miðað við lok 22. viku, eða þegar kona er gengið 21 viku og sex daga. Þetta eru þau viðmið sem sérfræðingar á sviðinu nota og mikilvægt er að halda til haga í umræðunni.

Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingum á þessu sviði eru barnalæknar almennt ekki kallaðir til við fæðingu á fyrirbura nema fóstur hafi þroska upp á a.m.k. 23 vikur eða við upphaf 24. viku þar sem líkur eru taldar engar á að barnið lifi af. Fyrirburar sem lifað hafa af eftir fæðingu um miðja 24. viku hér á landi eru teljandi á fingrum annarrar handar. Mörkin sem lögð eru til, það er lok 22. viku eða 21 vika plús sex dagar, eru því á tímamarki þar sem ekki er reynt að bjarga fóstrum innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er staðreynd sem mikilvægt er að þingmenn sem aðrir séu meðvitaðir um.

Í þessu samhengi langar mig að vitna í orð eins ágæts fæðingar- og kvensjúkdómalæknis sem birtust í umræðunni á dögunum, með leyfi forseta:

„Eitt er alveg á hreinu: konur munu um alla tíð verða þungaðar á röngum tíma, með röngum manni, í röngu ástandi, óviljandi, vegna þess að smokkurinn rifnaði eða þær köstuðu upp pillunni.“

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Ég óska þess eindregið að við höldum okkur við umfjöllunarefni þessa máls í umræðunum hér. Efni þessa frumvarps snýst ekki um tilvik þegar kona í eftirvæntingu sinn eftir barni, gengin 22 vikur, missir það vegna andláts fyrirbura í fæðingu. Það er ekki umfjöllunarefnið hér.

Það mál sem hér er til umfjöllunar er þegar kona tekur þá þungbæru og erfiðu ákvörðun að binda enda á þungun vegna þess að hún hefur tekið þá ákvörðun með sjálfri sér eða þeim aðilum sem hún ákveður að treysta og reiða sig á, hver svo sem ástæðan er fyrir þeirri ákvörðun.

Ég spyr því: Hver er betur til þess fallinn að meta aðstæður sínar en konan sjálf? Er löggjafinn betur til þess fallinn að skipta niður í flokka þeim ástæðum sem konan þarf að uppfylla til að geta fengið að ganga hér um frjáls og örugg? Eru tveir læknar betur til þess fallnir? Er nefnd skipuð lækni, félagsráðgjafa og lögfræðingi betur til þess fallin? Það er mín niðurstaða, en ekki bara mín niðurstaða, það er niðurstaða nefndar sem skipuð var af forvera mínum í stól heilbrigðisráðherra og í áttu sæti fremstu sérfræðingar okkar á þessu sviði, að konan væri sú sem ætti að taka þessa ákvörðun. Það var líka niðurstaða fjölda sérfræðinga og félagasamtaka og kom svo bersýnilega í ljós í umsagnarferli þessa máls hve skýr afstaða fagfólks á þessu sviði er til málsins. Fagfólk var á sama máli um að ákvörðun ætti að vera konunnar, hún væri best til þess fallin að taka þessa ákvörðun og skyldi eiga þess kost fram til loka 22. viku þungunar. Þessi ákvörðun er ekki og verður aldrei konum auðveld eða léttvæg. Við skulum hafa það hugfast.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr.