149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir yfirferðina á þessu mikilvæga máli. Mig langar að byrja á að taka fram að ég er fyllilega sammála áherslum á sjálfsákvörðunarrétt kvenna í þessu máli. Það breytir því ekki að það eru áhugaverðir vinklar og hæstv. ráðherra kom svo sem inn á það. En það sem mig langar ekki síst að fókusera á í andsvörum mínum er áherslan á það sem verið er að útrýma, þ.e. að verið er að útrýma flokkuninni, hvort um er að ræða fatlað fóstur eða ófatlað, og það fært yfir í sjálfsákvörðunarrétt kvenna óháð skimunum á fóstrinu. Þá er ég komin að því sem mig langar að ræða, þ.e. skimun. Við höfum með réttu, tel ég, fengið orð á okkur að vera þjóðfélag sem leggur gríðarlega áherslu á skimun og við ýtum því að þunguðum konum frekar en ekki.

Mig langar til að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra: Var (Forseti hringir.) þessi menning okkar, ef svo má segja, eitthvað rædd samhliða gerð þessa frumvarps?