149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið og ég er ánægð að heyra að þetta sé komið í ferli af því að þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli, óháð því frumvarpi sem hér er til umræðu. Við virðumst vera að detta í þann farveg, og ég hef svo sem það rætt áður, að í stað þess að nota þá tækni sem við búum yfir til að einstaklingsmiða hina ýmsu þjónustu, erum við farin að setja alla einstaklinga undir sama hatt. Við notum tæknina við að stíga skref aftur á bak.

Þá langar mig til að nota tækifærið í seinni umferð til að spyrja hæstv. ráðherra. Ég veit að í löndum eins og í Hollandi, Kanada og öðrum löndum er mjög frjáls löggjöf í þessum efnum. Er til einhver tölfræði þar yfir fjölda þungunarrofa? Hafa orðið einhverjar stökkbreytingar í þeim tilfellum sem létt hefur verið á löggjöfinni? Eitthvað sem við getum haft til hliðsjónar og eiginlega til að svara þeim sem telja hættu á að konur fari að nýta sér þetta í ríkari mæli sem getnaðarvörn?