149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt mínum upplýsingum er í bresku lögunum óheimilt að vísa til kyns sem röksemdar fyrir þungunarrofi. En hins vegar er það líka þannig, og ég vil biðja hv. þingmann um að hafa fyrirvara á því, því að ég þarf að ná mér í betri upplýsingar um það, að þunguð kona getur alltaf leitað eftir upplýsingum um kyn hjá einkaklíník þó að óheimilt sé að nýta það og vísa til þess sem einhvers konar röksemdar fyrir þungunarrofi. Þannig er þessu háttað í Bretlandi. En við smíði þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar þótti það afar mikilvægt að það væri alveg skýrt að sjálfsákvörðunarrétturinn væri skýr og að röksemdirnar væru konunnar.