149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er ég sammála hv. þingmanni um að það sé löngu tímabært að uppfæra þessi lög til nútímans. Þau eru orðin 43 ára gömul og eru í raun okkur öllum, íslensku samfélagi — ég segi ekki til skammar, en það er a.m.k. algerlega tímabært að við uppfærum þau til nútímans, við sem við viljum vera fremst í flokki þjóða í jafnréttismálum.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þessi mörk og hvort til álita hafi komið að hafa engin tímamörk. Þá er því til að svara að það kom ekki sérstaklega til álita vegna þess að í skýrslunni sem kom frá nefndinni eru þessi tilteknu tímamörk lögð til og við í ráðuneytinu töldum ekki rétt að fara að togast á um þá niðurstöðu nefndarinnar, enda var þar um að ræða tilteknar röksemdir. En í Kanada, þar sem tímamörkin eru engin, snerist málið um það samkvæmt mínum upplýsingum að það þótti brjóta í bága við stjórnarskrá þar að lögin væru (Forseti hringir.) eins og um þau var búið og því voru þau (Forseti hringir.) felld úr gildi.