149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:30]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þetta frumvarp sem er uppfærsla á nærri hálfrar aldar gömlu frumvarpi sem fjallaði um fóstureyðingar. Ég tek undir það sem komið hefur fram hér, að verið er að festa sjálfsákvörðunarrétt kvenna í sessi, sem mér finnst skipta gríðarlega miklu máli.

Þetta er mikið tilfinningamál og við erum ekki að fara í einhverja flokkadrætti. Bara orðið, að breyta úr fóstureyðingu í þungunarrof, segir heilmikið og getur kveikt einhverjar spurningar. Maður hefur lesið bæði greinar fagaðila með og á móti í þessu efni. En þá langar mig í fyrra andsvari að koma að tímamörkunum. Hvað var það nákvæmlega sem studdi þau í stað þess að fara neðar eða jafnvel ofar? Voruð þið að horfa til annarra landa? (Forseti hringir.) Hvað var það að endingu sem varð til þess að þið tókuð þessa ákvörðun, 22 vikur?