149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í framsögu minni var lögð mjög mikil áhersla á að þessi ákvörðunarréttur barns væri stigvaxandi með hækkuðum aldri og lögðu bæði dómsmálaráðuneytið og umboðsmaður barna mjög skýra áherslu á það. En við gerum ráð fyrir því í frumvarpinu, og ég vænti þess að nefndin muni skoða þann þátt sérstaklega, að tryggt sé að barnið njóti stuðnings bæði á undan og eftir þessari aðgerð, það sé gert í samræmi við aðra heilbrigðisþjónustu en ekki síður þá viðkvæmu og flóknu ákvörðun sem þarna er verið að taka.

Ég geri ráð fyrir því að vegna þess að við erum aðilar að samningum, alþjóðasamningum o.s.frv., um réttindi barnsins, að það sé í raun þau sjónarmið sem hér séu undir. En við verðum auðvitað að tryggja, eins og hv. þingmaður bendir á, að (Forseti hringir.) umbúnaður sé allur með þeim hætti að það sé tryggt að barnið fái allar upplýsingar og allan (Forseti hringir.) þann stuðning sem það þarf á að halda.