149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:35]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um heimild konunnar til að láta eyða fóstri sínu fram að 23. viku meðgöngu, til loka 22. viku. Ég hefði seint trúað því að ég ætti eftir að standa í þessu æðsta ræðupúlti landsins og draga í efa að við konur höfum verið sviptar sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama þó að við höfum ekki heimild til að láta eyða barni eftir 22. vikna meðgöngu. Það skal tekið fram að við erum ekki bara að tala um fóstur á þessum tíma heldur ófullburða barn í móðurkviði. Það er lítil stúlka á leikskólanum á Ólafsfirði. Hún fæddist eftir 22. vikna meðgöngu, rétt tæplega, hér á Völlunum í Hafnarfirði. Sú fæðing var fyrir tímann. Það var lán að ljósmóðir var í næsta húsi sem fór með móðurinni og þessum litla fyrirbura á sjúkrahúsið. Nú er hún tveggja ára á leikskólanum á Ólafsfirði og það er ekkert að henni.

Það er eitt sem er mjög jákvætt í frumvarpinu sem mér finnst sérstaklega ástæða til að taka til, burt séð frá því að lögin eru frá 1975, en það er að aðskilja ófrjósemisaðgerðir frá hinni eiginlegu fóstureyðingu. En að ætla einhvern veginn að koma því þannig fyrir að við konur vitum ekki fyrir þennan tíma að við göngum með barni, og séum þá búnar um leið að taka ákvörðun um það hvort við viljum eiga barnið eða ekki, verð ég að benda á að á árinu 2017 voru framkallaðar 1.044 fóstureyðingar. Það var engri konu af neinni einustu ástæðu neitað um fóstureyðingu. Ekki einni. Bendir það til þess að búið sé að svipta okkur sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama? Eða hvað er verið að gera með því að ætla að keyra í gegn þetta andstyggðarfrumvarp? Fyrirgefið þið, þetta er mér tilfinningalega mjög mikilvægt, mér finnst þetta siðferðislega rangt. Ég ætla að fá mér vatnssopa, þetta er mér mikið hjartans mál, þetta er í fyrsta skipti sem ég titra í ræðupúltinu, það er núna.

Ég ætla að snúa mér að öðru. Ég á von á litlu barnabarni. Þegar móðirin var gengin 18 vikur á leið þá fékk ég að vita að þetta væri lítill drengur sem ætti að heita Tristan og hann var spriklandi í móðurkviði. Hver er lífsréttur hans? Hver er lífsréttur ófædda barnsins? Er aðlögunartíminn ekki nógur? Við höfum miðað við 12 vikur. Við höfum verið að framkalla fóstureyðingar hér alveg hiklaust upp á 16. viku. Við höfum tekið tillit til þess ef konu hefur verið nauðgað, ef kona á ofboðslega erfitt félagslega. Ef eitthvað þannig hefur komið upp höfum við ekki hafnað fóstureyðingu. Við erum að framkalla fjórar fóstureyðingar hvern einasta virka dag ársins miðað við 1.044 framkallaðar fóstureyðingar á árinu 2017.

Mér finnst þetta frumvarp lítilsvirðing við lífið. Það virðist engu máli skipta hvaða ástæður liggja að baki fram að 23. viku. Það hefur ekkert með það að gera lengur hvort fóstrið, sem nú er orðið að ófullburða barni í móðurkviði, er heilbrigt eða ekki. Kynfrelsi konunnar og réttur hennar til að ráða yfir eigin líkama skal settur í öndvegi yfir allan lífsrétt barnsins, bara algjörlega. Þetta er með miklum ólíkindum. Það væri allt í lagi að fá einhverja röksemd fyrir því hvað veldur þessu í ljósi fóstureyðinga ársins 2017. Hvað veldur því þegar engri konu var neitað um fóstureyðingu? Hvers vegna skyldum við taka þá áhættu að slík atvik komi upp? Við skulum gefa lítið dæmi. Við skulum gefa dæmi sem við þekkjum úr samfélaginu um yndislegt par sem á von á barni. Allt í einu kastast í kekki og konan er komin 20 vikur á leið. Þau ætluðu að eiga barnið. Það var hamingja. En eitthvað kom upp á, kanski framhjáhald, hver hefur ekki heyrt það hugtak? Allt í einu verður konan reið og segir: Nei. Ég ætla ekki að eiga barn með þér. Nei, ég vil ekki sjá þetta, ég ætla að fara í fóstureyðingu.

Hver er réttur barnsins? Hvers vegna tölum við eins og lífið skipti ekki máli?. Og hvernig stendur á því að það er hvergi verið að ræða það hvernig við getum tekið utan um þær konur sem virkilega eru í vanda og hjálpað þeim til að eignast barnið sitt, því að það er mesta guðs gjöf sem við fáum nokkurn tímann, þegar við fáum barnið okkar. Og auðvitað er þessi ákvörðun, að láta eyða barninu sínu, skelfilega þungbær — örugglega eitt það hræðilegasta sem nokkur móðir þarf að ganga í gegnum. Þá er ég að miða við þegar það er nánast nauðsynlegt, annaðhvort vegna þess að fóstrið er þannig úr garði gert að það eru engar lífslíkur fyrir það og það væri bara hrein og klár mannvonska að fæða það í heiminn eða að móðurinni er hætta búin.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara út í smáatriði lagabókstafsins hvað varðar núgildandi tímaramma um fóstureyðingar, enda algjör óþarfi. Í raun er ekki einu sinni farið að gildandi lögum nú heldur hafa lögin verið sveigð í áttina að óskum kvenna sem kjósa að láta eyða fóstri sínu eftir 12 vikna meðgöngu. Erfitt? Jú. Erfitt að fara í fóstureyðingu? Jú. Sú sem hér stendur veit nákvæmlega um hvað hún er að tala. En það breytir ekki þeirri staðreynd að mér finnst við gera lítið úr réttinum til lífs. Mér finnst við gera lítið úr því að 22. vikna fóstur er orðið lítil manneskja. Í alvörunni, fóstrið er lítil manneskja sem á rétt á lífi. Og ef hún hefur aldrei átt að verða til, ef hún er óvelkomin, þá finnst mér líka að það hefði verið hægt að skoða það pínulítið fyrr, því við vitum á 4. til 6. viku hvort við erum barnshafandi eða ekki. En mér finnst gert lítið úr okkur konum að halda að við séum algerlega ómeðvitaðar um það þegar við verðum þungaðar. Mér finnst það lítilsvirðing við okkur konur.

Í þessu nýja frumvarpi er talað um að í gildandi lögum sé hugtakið fóstureyðing notað. Og í greinargerð með nýju frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur þykir hugtakið fullgildishlaðið og betur við hæfi að kalla aðgerðina þungunarrof. En hvers vegna? Hvers vegna þungunarrof? Þetta er fóstureyðing og ekkert annað. Hvers vegna að klæða þetta í annan kjól? Við erum að tala um fóstureyðingu og ekkert annað.

Þegar við erum að tala um sjálfsákvörðunarréttinn, virðulegi forseti, þá ber ég virðingu fyrir kynsystrum mínum ekki síður en sjálfri mér. Ég ætla þeim ekki þá grunnhyggni, eins og ég sagði áður, að þær viti ekki hvernig börnin verða til. Ég ætla þeim heldur ekki að vita ekki að til eru getnaðarvarnir. Ég ætla þeim heldur ekki á nokkrum tímapunkti að þurfa að þola það að vera nauðgað og hafa ekkert um það að segja, því það er í einu skiptin sem þær eru ekki með sjálfsákvörðunarrétt yfir líkama sínum, það er ef þær eru teknar með valdi, þeim er nauðgað eða annað slíkt. Að öðru leyti ákveða þær flestar sjálfar hvort þær stunda kynlíf eða ekki og við vitum einnig hvernig börnin verða til.

Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra benti á áðan er þetta afskaplega tilfinningaþrungið. Og við ætlum að ganga á undan, bara vegna þess að við viljum segja að við séum þjóðin sem göngum á undan og bjóðum konum mesta kynfrelsi á jörðinni eða hvað eina annað sem er. Mér er alveg sama hvaða nöfnum það nefnt, ég horfi einungis á 22. vikna gamalt fóstur. Ég horfi bara á það. Ég horfi bara á það hvernig það er síðan deytt; þegar sprautað er í það eitri og það er látið deyja í móðurkviði til að kalla fram fæðingu eftir tvo sólarhringa og þegar komið er í sónar hefur sú skelfilega staða meira að segja komið upp að barnið var ekki enn dáið.

Ég segi bara: Mér finnst bara við vera að skjóta okkur aftur til — ég veit ekki hvaða tíma — útburðartíma, þegar börn voru óvelkomin. Þau voru bara borin út.

Ég segi: Ég held okkur væri nær að taka saman höndum og taka utan um þær konur og þær stúlkur sem virkilega þrá að eignast barnið sitt, en af félagslegum ástæðum eða vegna erfiðleika þá geta þær það ekki, heldur neyðast þær til að taka þá ömurlegu ákvörðun að láta eyða fóstri sínu, að eyða barninu sínu. Það er þar sem við ættum að koma inn. Það er þar sem við ættum að styðja við. Það er þar sem við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi og ekki gleyma því að árið 2017 voru framkvæmdar 1.044 fóstureyðingar, fjórar fóstureyðingar hvern einasta virka dag ársins og engri konu, engri einustu, var neitað um framkvæmd þeirrar aðgerðar. Ekki einni.

Niðurstaða mín er þessi: Það er rétt og skylt að aðskilja ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar, en að öðru leyti hafa þær reglur sem við höfum haft hingað til virkað fullkomlega. Það er a.m.k. hafið yfir allan vafa að það mun ekki verða geðþóttaákvörðun, eftir 16, 18, 20 eða hvað þá 22 vikur, hvort mér eða þér dettur allt í einu í hug að barnið sem við göngum með sé óvelkomið í dag.