149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í máli hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér, Ingu Sæland, að við erum eiginlega ósammála um flest sem þessu máli viðkemur.

Ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, því ég hef miklar mætur á hv. þingmanni, að ég vona innilega að umræða okkar um þetta mikilvæga frumvarp sem hér liggur fyrir verði ekki á þeim nótum sem voru í ræðustól áðan. Ég vil hvetja okkur öll sem ætlum að taka þátt í þessari umræðu til að hugsa til þess fólks sem er þarna úti að fylgjast með þessari umræðu og hefur gengið í gegnum slíkt og hefur alls konar tilfinningar. Ég skal, virðulegur forseti bera fulla virðingu fyrir þeim tilfinningum sem hv. þingmaður hefur, en tilfinningar eru alls konar. Ég held að í þessari umræðu þurfum við að einbeita okkur að því að horfa á frumvarpið og staðreyndir málsins en ekki líkja spriklandi börnum í móðurkviði eða einhverju slíku við þetta mál.

Að þessu sögðu þá langar mig að spyrja hv. þingmann um lögin en hún sagðist telja að lögin eins og þau væru í dag virkuðu fullkomlega. Samt hjó ég eftir því að hv. þingmaður virtist hafa ýmislegt við það að athuga hversu mörg þungunarrof væru gerð á ári hverju.

Lögin sem gilda í dag eru frá árinu 1975, sem þýðir að þau eru eldri en ég. Þar er fjallað um sérstakar ástæður til þess að heimila þungunarrof sem í þeirri löggjöf heitir jú fóstureyðing. Þar er talað um aðstæður sem ég hefði haldið að við flest gætum verið sammála um að eru ekki endilega aðstæðurnar í dag og eins og hv. þingmaður kom einmitt inn á þá er framkvæmd laganna í dag ekki í samræmi við lögin.

Af þeirri einu ástæðu spyr ég: Telur hv. þingmaður að sú ástæða sé ekki fullgild til þess að við endurskoðum (Forseti hringir.) lögin og förum yfir þá þætti sem þar undir liggja, óháð því (Forseti hringir.) hvaða viku við erum að tala um varðandi tímamörkin?