149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:01]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta eru tilfinningaríkar umræður. En það gengur stundum alveg fram af mér og mér finnst við vera að tala niður til kvenna um sjálfsákvörðunarrétt kvenna sem þetta frumvarp undirstrikar.

Hv. þm. Inga Sæland talaði um að konur vissu allar fyrir 12. viku að þær væru óléttar. Ég hef lesið það og staðfest hjá ljósmóður að það fæðist eitt barn á ári, fullburða, sem konur hafa ekki vitað um að þær væru ófrískar að, og það er ekkert endilega af því að konur hafi verið eitthvað óheilbrigðar, eru bara fullheilbrigðar konur. Þetta hefur alla tíð verið svo.

Ég skil ekki alveg þennan málflutning hérna, mér finnst að við þurfum að vera málefnaleg og tala frekar málefnalega um ýmis ákvæði í frumvarpi heldur en að tala svona niður til kvenna. Hv. þingmaður fjallaði um að frumvarpið byggði á því að konur gætu fengið þungunarrof á félagslegum rökum. Þá tel ég að hv. þingmaður þurfi að lesa frumvarpið aðeins betur, því að það er algerlega sjálfsákvörðunarréttur kvenna að fara í þungunarrof. En mig langar þá til að spyrja: Vilt þú bara banna þungunarrof á Íslandi?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina fyrirspurnum til forseta eða kalla aðra þingmenn háttvirta eða nefna þá með nafni.)