149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Það sem hefur einkennt andsvörin sem ég hef fengið frá kynsystrum mínum er það að ég sé að tala okkur niður, ég sé að tala konur niður, en ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt eina einustu þeirra tala um það að ég sé að tala fyrir lífsrétti barnsins, ekki eina einustu.

En jú, það er alveg rétt sem hv. þm. Halla Signý benti á, ég talaði um félagslega réttinn í nýju lögunum. Það voru mismæli, því að ég hef sagt áður að það væri geðþótti konunnar hvenær henni þóknaðist að fara í fóstureyðingu fram yfir 22. vikna meðgöngu.

En hvernig sem í rauninni er verið að tala um þetta, að við tölum um hlutina og eiga orðavalið og hafa það kurteisislegt á hinum eða þessum nótunum, þá get ég alveg sagt það alveg bara frá innstu hjartarótum: Ég hef í rauninni aldrei talað um neitt í þessu háa Alþingi sem hefur stungið mig eins í hjartað og þetta frumvarp. Aldrei. Það er líka þannig um marga, ekki bara konur í samfélaginu, heldur Íslendinga í samfélaginu sem finnst þetta vera siðferðilega rangt. Og að við skulum voga okkur að leggja þetta fyrir, það eru margir sem eiga ekki eitt einasta aukatekið orð yfir því og ég er ein af þeim.