149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um þungunarrof frá ráðherra heilbrigðismála. Í upphafi vil ég fjalla aðeins um hugtakið þungunarrof. Þungunarrof er nýyrði sem hefur um tíma verið notað í stað orðsins fóstureyðing. Hugtak þetta er ekki óumdeilt og hafa sumir sagt það vera fegrandi feluorð. Það verður að segjast eins og er að með þessu nýja hugtaki er fókusinn tekinn frá fóstrinu og færður alfarið yfir á móðurina. Hér er á ferðinni hugtak sem gefur tilefni til að ætla að verið sé að milda það sem raunverulega er að gerast. Frumvarp þetta er borið fram undir formerkjum mannskilnings, að sjálfsákvörðunarréttur konunnar sé virtur. Það er fært í ákveðinn búning í langri greinargerð þannig að erfitt er að mæla gegn tilteknu atriði í frumvarpinu annars vegar þegar verulegur galli fósturs kemur í ljós en hins vegar felst breytingin í mjög mikilli lengingu þess tíma sem fóstureyðing er heimiluð og að ekki þurfi aðrir en móðirin sjálf að koma að ákvörðun um fóstureyðingu.

Hér er að mínu viti gerð tilraun til að ganga lengra en rétt er, í fyrsta lagi vegna þess að fóstrið sem eyða má er orðið að einstaklingi sem gæti lifað ef það fæddist og yrði því manneskja að lagalegum skilningi. Í öðru lagi er vald móður yfir lífi barns í móðurkviði metið út frá því að barnið sé hluti af móðurinni en ekki sjálfstæður einstaklingur.

Í núverandi löggjöf er fóstureyðing heimiluð til loka 15. viku meðgöngu. Í frumvarpinu er lagt til að konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að 22. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja konunnar. Það er því verið að heimila fóstureyðingu að 21. viku og 6. degi meðgöngu. Barnið er þá löngu orðið fullþroskað. Nú á tímum geta læknavísindin bjargað fyrirburum allt niður að 23. viku meðgöngu. Þetta er því spurning um örfáa daga milli þess sem reynt er að bjarga lífi og þess að deyða það. En hvenær er fóstur orðið lifandi manneskja sem hefur rétt til lífs? Hvenær eignast barn í móðurkviði mannréttindi? Það að halda því fram að mannréttindi verði ekki til fyrr en við fæðingu er í hæsta máta varasöm kenning. Við tökum mannréttindi alvarlega og fögnum um þessar mundir 70 ára afmæli mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Á bls. 5 í frumvarpinu er þess getið að samkvæmt 3. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sé kveðið á um að allir eigi rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Þá spyr maður sig: Hvar er réttur fósturs sem er fullþroskað til lífs? Því má aldrei gleyma að sá möguleiki er ávallt fyrir hendi að breyta óvelkominni þungun í gleðigjafa til þeirra sem ekki geta alið barn. Ættleiðing er kostur sem mikilvægt er að íhuga við þessar aðstæður. Styðja ber við þær konur sem taka ákvörðun um að gefa barn sitt við fæðingu og hefur Miðflokkurinn lagt fram frumvarp þess efnis, en konur sem gefa barn sitt við fæðingu hafa ekki notið neins stuðnings frá hinu opinbera.

Herra forseti. Ég virði sjálfsákvörðunarrétt konunnar til að taka ákvörðun um eigin líkama, að taka ákvörðun um að enda líf ófædds barns. Hvort sem ákvörðun er tekin vegna fæðingargalla, sjúkdóms eða óvelkominnar þungunar er hún langt því frá auðveld. Aðstæður fólks geta oft og tíðum verið margslungnar og erfitt er að setja sig í þessi spor. Ég trúi því að konan geti tekið upplýsta ákvörðun eftir ráðgjöf fagfólks. Að endingu er ákvörðunin hennar, ákvörðun sem hún þarf að lifa með. Við verðum hins vegar að gæta þess að það má aldrei verða geðþóttaákvörðun konunnar, t.d. eftir sónar við 20. viku meðgöngu, þar sem hægt er að vita kyn barnsins, að ljúka skuli meðgöngunni. Við skulum einnig hafa hugfast að samfélag okkar byggir á fjölbreytileika karla og kvenna. Þar eiga fatlaðir rétt á að lifa og fá umönnun við hæfi.

Það er nokkuð víst að skoðanir eru skiptar um rétt til þungunarrofs eða fóstureyðinga meðal kristinna manna. Mörgum finnst það einfaldlega vera brot á fimmta boðorðinu: „Þú skalt ekki morð fremja“. Allt frá því að umræðan um fóstureyðingar fór af stað sem leiddi til löggjafar um þau efni hefur þjóðkirkjan ekki viljað ganga eins langt og sum önnur kristin trúfélög og halda fram þeirri skoðun að aldrei megi heimila fóstureyðingu, jafnvel þótt margir sem henni tilheyra telja að svo ætti að vera. Hins vegar eru ekki til margar yfirlýsingar þjóðkirkjunnar og stofnana hennar um þessi mál.

Árið 1987 samþykkti kirkjuþing eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

„Rétturinn til lífs er frumatriði allra mannréttinda. Þá kröfu verður að gera til ríkisvaldsins að það verndi mannlegt líf og efli meðal almennings vitundina um mannhelgi.“

Löggjöf sem í raun gerir hið ófædda líf réttlaust brýtur gegn því grundvallarsjónarmiði kristindómsins að sérhver einstaklingur eigi rétt til lífs allt frá upphafi og þangað til dauðinn ber að dyrum með eðlilegum og óviðráðanlegum hætti.

Í greinargerð með ofangreindri samþykkt segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Kirkjuþing telur brýna nauðsyn bera til að lög kveði á um friðhelgi mannlegs lífs, tryggi rétt þess jafnt fyrir sem eftir fæðingu.“

Herra forseti. Er þetta frumvarp hinn sanni jólaandi ríkisstjórnarinnar? Ég styð það ekki. Við Íslendingar þurfum ekki að hafa frjálslyndustu löggjöfina um fóstureyðingar.