149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Já, ég set mig upp á móti þessum tímaramma. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega þetta með geðþóttaákvörðun og þá tel ég að þær aðstæður gætu komið upp, eins og ég nefndi t.d. varðandi löggjöfina í Bretlandi, þar er ekki heimilt að fá að vita kyn barns fyrr en þessi ákveðni frestur til að fara í fóstureyðingu er liðinn og ástæðan hlýtur að vera sú hætta að ákvörðunin að fara í þungunarrof hafi með kyn barnsins að gera. Ég spurði hæstv. ráðherra einmitt að þessu áðan, hvort ekki sé hætta á því að ákvarðanir verði teknar með þessum hætti. Ég held að það hafi ekkert með það hvort karlmaður sé að segja til um það eða kona. Það held ég að sé einhvers konar útúrsnúningur hjá hv. þingmanni.

En já, þetta frumvarp og þá sérstaklega það hvað er búið að lengja þetta tímabil til að fara í fóstureyðingu eða þungunarrof, er andstætt minni lífsskoðun, ég segi það bara hér. Við erum að tala um barn sem er orðið fullþroska og það er í raun og veru dagamunur hvort hægt væri að bjarga slíku barni sem er orðið þetta þroskað í fyrirburafæðingu. Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri varðandi fyrirspurn hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir.