149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta var kannski ekki eiginleg fyrirspurn, en svona vangaveltur. Ég vil segja að þessi umræða á ekki að vera einkamál kvenna. Ég benti á að konur, fagaðilar, hafa skrifað greinar um þetta frumvarp og mælt gegn því, þannig að ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að karlmenn jafnt sem konur taki þátt í þessari umræðu. En ég tek alveg heils hugar undir að fara ber varlega í þessari umræðu. Það verður að nota rétt orðfæri. Það er fólk úti í samfélaginu sem er viðkvæmt fyrir þessari umræðu. Ég skil það mætavel og ég held að ég hafi nú nálgast mína ræðu með þeim hætti.

Ég sé ekki að það séu neinar mótsagnir í ræðu minni hér vegna þess að ég tel, og ég hef skýrt það út, að sú staða getur komið upp að fólk nýti þetta úrræði í tilgangi sem ég tel vera mjög vafasaman. Þá nefni ég sérstaklega það þegar kemur að kyni barna. Það er bara staðreynd að sumir vilja ekki fleiri drengi eða ekki fleiri stúlkur, þannig að þarna eru þættir sem valda verulegum áhyggjum að mínum dómi. Ég held að það sé alveg ljóst að það verður að reyna að tryggja það, eins og t.d. er gert í Bretlandi, (Forseti hringir.) að sú staða komi ekki upp að hægt sé að (Forseti hringir.) taka ákvörðun á grundvelli t.d. kyns barns, eins og ég hef nefnt hér oftar en einu sinni.