149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að það gæti verið að fólk nýtti þetta úrræði. Það getur bara verið þannig að konur nýti úrræðið, það er svolítið punkturinn hjá mér. Ég ætla að fara betur yfir í það í ræðu minni á eftir.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í annað sem er svipaðs eðlis en varðar ekki efni frumvarpsins sjálfs, þ.e. hvernig við eigum að nálgast spurninguna og hvernig við eigum að nálgast réttu svörin við svo sem hvaða spurningum við höfum. Hv. þingmaður fór aðeins yfir í viðhorf kristinna manna.

Þetta frumvarp kemur upp úr gríðarlega mikilli vinnu sérfræðinga, siðfræðinga og lækna, eftir heilmikla umræðu þar sem tekist hefur verið á við mjög erfiðar spurningar eins og þroska barnsins og alls konar mismunandi aðstæður sem eru erfiðar eðli málsins samkvæmt. Það er jú þungamiðjan í þessu öllu saman, þetta eru erfiðar spurningar. Og 22. vikna markið er ekkert út í bláinn. Það er til komið eftir verulega umfjöllun, fólk sem sérhæfir sig í siðfræðilegum álitamálum, í læknavísindum. Það eru mjög erfiðar spurningar þar.

Mér finnst alltaf mjög óþægilegt þegar fólk tekur fyrir abrahamísk trúarbrögð sem einhverja leið til að útkljá siðferðisspurningar, sér í lagi á Alþingi, vegna þess að mínu mati eru þau úrelt leið til þess. Það þarf ekki margar tilvitnanir í Gamla testamentið til að sýna fram á það. En ég sé ekki alveg hvaða hlutverki trúarsannfæringar spila í siðfræðinni eða í vísindum í dag. Ég sé ekki að siðfræði eða vísindi hafi nokkurn skapaðan hlut að gera með abrahamísk trúarbrögð nema kannski sem einhverja sögu um hvernig hugmyndir manna hafa þróast í gegnum tíðina.

Þannig að seinni spurning mín til hv. þingmanns er: Hvað koma trúarlegar kennisetningar, hvort sem er kristinna manna eða annarra, þessu máli við?