149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:30]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til breytinga á lögum um þungunarrof frá heilbrigðisráðherra. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við förum öll inn í þessa umræðu af smáyfirvegun og áttum okkur á því að hér er um stórt frumvarp að ræða með gríðarlega mörgum og mikilvægum breytingum. Umræðan má ekki einskorðast við einn hlut í því máli þó að það sé mikilvægt að ræða alla hluta frumvarpsins.

Frumvarpið á auðvitað að leysa afar gömul lög af hólmi. Þau voru orðin 43 ára gömul og úrelt að mjög mörgu leyti, þar á meðal hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Lögin voru engan veginn í takt við framkvæmdina. Þannig löggjöf viljum við ekki hafa hér og það er einmitt verkefni okkar að breyta því og gera bragarbót á, sér í lagi þegar miklar þjóðfélagsbreytingar hafa átt sér stað síðan síðustu lög voru samþykkt.

Það er óhætt að segja að gildandi lög séu hvorki í samræmi við framkvæmd, eins og ég fór yfir áðan, né nútímaviðhorf, hvert sem við lítum, hvort sem varðar réttindi fatlaðs fólks eða til að mynda sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Þróunin hefur verið gríðarlega mikil og hröð. Um þetta var einnig tekist á fyrir 43 árum af því að þá voru einnig baráttumenn fyrir enn betri lögum — sem urðu undir.

Konur njóta hér á landi mikillar virðingar, ætla ég að leyfa mér að segja. Við eigum að vera óhrædd við að ræða í umræðu um þetta frumvarp að ákvörðun þeirra um þungunarrof sé virt og að sjálfsforræði þeirra sé í forgangi. Að sjálfsögðu er í þessu frumvarpi eins og þeim lögum sem það tekur við af undirstrikað að ávallt eigi að framkvæma þungunarrof eins fljótt og auðið er af því að þessi ákvörðun fyrir konuna er ávallt gríðarlega erfið. Það er ávallt vilji konunnar að gera þetta sjálf eins fljótt og hún getur.

Það er óhætt að segja að þetta sé með þeim erfiðustu ef ekki ein erfiðasta ákvörðun sem manneskja getur tekið. Á sama tíma og við ræðum þetta — og að hér fari fólk fram með miklu offorsi um það eina atriði hvar mörkin liggja — verðum við að vera tilbúin að taka þá umræðu á sem málefnalegastan hátt, hvar við viljum setja sjálfsákvörðunarréttinum skorður og hvar það sé eðlilegt. Ég er ekkert handviss um að þetta sé endilega rétta lausnin. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við tökum umræðuna, setjum málið í nefnd og í farveg og fáum enn þá fleiri umsagnir og ræðum það frekar. En ég er alveg handviss um að það er konan sem á að hafa ákvörðunarvaldið eins lengi og að við eigum að setja ný, bætt og breytt lög sem er löngu tímabært að gera. Það er á þeim forsendum sem við ættum að taka umræðu um þetta frumvarp af því að það breytir svo miklu fleira en bara þeim vikufjölda sem fólk ræðir hér og segir sig þá vera andstæðinga alls frumvarpsins. Það er algjörlega óþörf umræða. Ef fólk myndi aðeins setja það til hliðar væri ég alveg til í að heyra hvað fólki fyndist um frumvarpið, hvort það væri andstyggilegt og hvort fólk væri algjörlega á móti öllu sem í því stendur. Ég er alveg handviss um að svo er ekki.

Ég held að sú umræða gæti orðið og ég vonast til að hún sé með aðeins öðrum hætti en fyrir 43 árum. Ég vonast almennt til að umræður í þessum þingsal séu að mörgu leyti breyttar síðan þá. Stundum uppgötvar maður að viðhorf eru bara ansi lítið breytt síðan þá og að m.a. viðhorf til kvenna hafi mjög lítið þróast síðan þá, meðal sumra en auðvitað ekki allra.

Það er ósanngjarnt að láta þá umræðu sem byggist einungis á þessu atriði frumvarpsins snúast og slettast á frumvarpið í heild sinni og þá nauðsynlegu bragarbót sem frumvarpið er. En kannski mun umræðan eðlilega snúast að mestu um það af því að fólk er fast í einhverjum ákveðnum hjólförum um þetta eina atriði og reynir með þeim hætti að taka inn mikil tilfinningarök. Að vissu leyti er það eðlilegt en að sama skapi held ég að sú umræða hjálpi engan veginn, hvorki þeim sem tala gegn þessum þætti frumvarpsins né með því.

Í frumvarpinu er nefnilega líka fjallað um margt annað. Þar má nefna rétt kvenna til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita í tengslum við þungunarrofið. Síðan sýnir tölfræði annarra landa sem hafa sambærilega löggjöf og hafa rýmkað heimildirnar að áhrifin hafa hvorki verið þau að fleiri konur fara í þungunarrof né að konur dragi það eitthvað sérstaklega að velta því fyrir sér hvort þær ætli í þungunarrof af því að þær eru lengra gengnar og þungunarrof verður af þeim ástæðum enn þá meira inngrip, bæði í líf kvenna og líkama. Að sjálfsögðu ekki. Það er svo fjarstæðukennt að mæta upp í þennan ræðustól og taka dæmi þess að konur ætli bara aðeins að velta þessu fyrir sér, aðeins að bíða. Ætli þetta verði ekki örugglega strákur? Það er nefnilega enn þá smávandamál með viðhorf til kvenna. Eða: Æi, hann hélt fram hjá mér, bombum þessu barni í burtu. Hvað haldið þið í alvörunni að konur séu? Það er engin kona að fara að hugsa með þessum hætti!

En á sama tíma eigum við að ræða hér málefnalega um hvar við viljum hafa þennan vikufjölda. Það er umræða sem ég er svo innilega til í að taka, ég er ekkert alveg 100% viss um að hér sé nákvæmlega réttur dagur. En hvernig eigum við að taka þá umræðu á meðan fólk heldur að konur geri þetta og hugsi svona? Það er svo fjarstæðukennt að það gerir mig að mun meiri stuðningsmann alls frumvarpsins. [Hlátur í þingsal.]

Það mikilvægasta er að hér verði tekið tillit til þess hvernig konan sjálf metur sínar eigin aðstæður, hvort sem við erum að fara að ræða að setja upp einhvers konar skilyrði eða hvert sem þessi umræða um frumvarpið fer í nefndinni, að það er konan sem metur einnig sjálf aðstæður sínar. Við getum vísað í Noreg sem dæmi um það sem hefur verið gert í löggjöf þar í landi.

Síðan erum við líka, eins og ég nefndi fyrr, að ræða markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem talið er að fyrri lög, sem eru 43 ára gömul, viðhaldi staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki.

Ég var ánægð með þá umræðu sem fór fram í andsvörum við hæstv. heilbrigðisráðherra um skimun og að það sé einnig til skoðunar hjá ráðuneytinu. Í umsögn Félags áhugafólks um Downs-heilkenni og Landssamtakanna Þroskahjálpar segja félögin, með leyfi forseta:

„Í ljósi framkvæmdar stjórnvalda við skimanir …“

Tilvitnun lýkur af því að þarna staldra ég einmitt við. Framkvæmd stjórnvalda er nokkuð sem við þurfum að skoða. Er framkvæmd þessara mála hjá okkur eðlileg? Það er auðvitað algjörlega í takt við það sem verið er að reyna að koma til móts við, þau réttindi sem fólki með fötlun eru tryggð í samningi Sameinuðu þjóðanna og má ekki verða út undan í umræðu okkar að ræða með málefnalegum hætti.

Ég vonast til að þetta frumvarp og allir þeir fjölbreyttu angar sem eru á því fái hér málefnalega umræðu, ekki bara í þessum þingsal heldur úti í samfélaginu af því að dæmin og ástæðurnar og staða mismunandi einstaklinga í samfélaginu er svo mismunandi. Þó að við eigum kannski erfitt með að ímynda okkur að einstaklingur átti þig ekki á óléttunni eða sé í svo erfiðri stöðu að viðkomandi sjái engan veginn fram á líf eftir það, þó að við eigum erfitt með að setja okkur í þau spor verðum við samt að skoða öll þessi dæmi sem eru fyrir hendi í íslensku þjóðfélagi.

Okkar verkefni er að uppfæra þessi lög. Það er mikilvægt verkefni en að sama skapi er það líka okkar verkefni að skoða hvort við viljum gera einhverjar breytingar á þeim. Það er verkefni þingsins. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er komin með þetta frumvarp hingað til að við fáum það í þinglega meðferð og getum rætt það á þeim grunni að það er gríðarlega mikilvægt að breyta úreltum lögum sem eru ekki með neinum hætti í samræmi við framkvæmd — og ætti það að vera forgangsatriði löggjafarvaldsins — en heldur ekki í samræmi við nútímaviðhorf í garð fólks með fötlun eða kvenna.