149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:47]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það gætti engrar mótsagnar í tali mínu af því að ég sagði ekki að það væri ástæðan, að það myndi gerast eða að þannig hugsuðu konur. Ég sagði að ástæðan væri líklega út af hv. þingmönnum eins og þér sem telja það yfir höfuð vera hugsun kvenna að fara í þungunarrof út af ákveðnu kyni. Það samræmist algerlega því sem ég hélt fram í ræðu minni. Ef þetta dugar ekki hv. þingmanninum til að vera með löggjöfinni og með frumvarpinu í heild sinni — það hryggir mig að segja að hann sé alfarið á móti því þó að hann virðist bara vera upptekinn af vikufjöldanum — þá sé ég ekki nokkra ástæðu til að setja þetta inn í lögin.