149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að segja frá svolítið kjánalegri sögu. Ég fór einu sinni í pallborð hjá félagi sem ég er meðlimur í og var á þeim tíma að mig minnir í stjórn. Við fórum á fund og það var bókuð kona á fundinn en hún forfallaðist á seinustu stundu þannig að þarna sátu fjórir karlmenn. Í pallborðinu kom upp á einhverjum tímapunkti spurning um þungunarrof. Og jú, við fjórir karlarnir spjölluðum vissulega um það, enda aðspurðir, en síðan baunaði einhver á okkur, réttilega að mínu mati, að konur gætu verið orðnar svolítið þreyttar á því að vera sífellt að hlusta á einhverja kalla tala um þungunarrof, eitthvað sem þeir, eðli málsins samkvæmt, munu aldrei ganga í gegnum og finna á eigin skinni.

Mér leið mjög kjánalega í þessu pallborði og mér líður hálfkjánalega að koma hérna upp í pontu og tala um þetta mál af sömu ástæðum. Það er vegna þess að þegar allt kemur til alls — og nú orða ég þetta pínulítið óvarlega og ætla að segja það samt: Þegar allt kemur til alls finnst mér þetta mál ekki koma mér mikið við vegna þess að ég er karlmaður.

Ég átta mig fyllilega á því hversu móðgandi þetta getur verið fyrir suma karlmenn vegna þess að ég var einu sinni á þeim stað sjálfur og fannst það alveg fráleit pæling að karlar ættu ekki hafa skoðun á þessu. Bara til að árétta það þá er allt í góðu að karlar hafi skoðun á henni. Mér finnst bara erfiðara að taka mark á því. Það er málið. Mér finnst erfiðara að taka mark á því. Og mér finnst umræðan hérna í dag sýna í raun enn þá betur fram á þann punkt vegna þess að ég tek mjög skýrt eftir misjafnri nálgun karla og kvenna í þessari umræðu. Og hvern ætti það að undra? Við erum að ræða málefni sem — ef það er einhver ein leið til að skilgreina líffræðilegt kyn væri það þetta. Ég læt lækninn góða leiðrétta mig ef það er misskilningur hjá mér.

Ég tek líka eftir skoðanamun og nálgunarmun almennt í umræðunni og ég get bara ímyndað mér eina ástæðu fyrir því að svo er. Hún er sú að konur hafi innsæi sem karla skortir í þessu málefni. Ég veit það um sjálfan mig, alla vega, að ég hef ekki þetta innsæi. Þegar konur tala hérna í pontu eða almennt við mig um þetta tala þær af innlifun og upplifun sem er mér mjög fjarlæg og hún er það vegna þess að ég er karlmaður. Ég held að það sé bara þannig.

Nú er ég ekki þeirrar skoðunar að maður þurfi að upplifa allt á eigin skinni til að skilja það. En ég held að þetta sé eitt af þeim málum þar sem maður þarf fyllilega að geta sett sig í spor annars einstaklings til þess að öðlast nógu mikið innsæi til þess að taka allt með í reikninginn sem þarf að gera. Ég held að karlmenn skorti bara ákveðnar forsendur sem eru óhjákvæmilega nauðsynlegar til að taka rökrétta ákvörðun í þessu máli sem og í aðstæðunum sem þetta mál fjallar um. Þess vegna hef ég ekki alveg gert upp við mig hvernig ég hyggst greiða atkvæði, hvort ég verði með þessu eða sitji hjá. Ég veit það ekki, ég á eftir að finna út úr því. En mér finnst mitt hlutverk í þessari umræðu vera miklu meira að hlusta en að segja eitthvað.

En ég hef skoðun á því hvernig er farið með mál. Ég hef skoðanir á því hvernig við tökum ákvarðanir almennt. Mér finnst það skipta mjög miklu máli. Eitt af því sem einkennir vitleysisgang mannkyns er hugsunarleysi og rangar aðferðir við sannleiksleitina, mjög rangar aðferðir, aðferðir sem vitað er mætavel að virka ekki og er mjög auðvelt að sýna fram á að virki ekki. Kóngurinn í þeim efnum er að sjálfsögðu abrahamísk trúarbrögð. Fyrirgefið að ég fari út í þetta málefni, en það þarf að tala aðeins upphátt um þetta. Þegar abrahamísk trúarbrögð, með öllum þeim sögulega bagga sem þeim fylgja, fara að blanda sér í ákvörðunarferli eins og hér á Alþingi þá verða slys, ákvarðanaslys.

Það er fullt af góðum hlutum að finna sennilega í öllum abrahamískum trúarbrögðum. Það er ekki allt vitleysa sem er skrifað, það er reyndar fullt af frábærum hlutum í Biblíunni, en það er rosalega mikið af vitleysu líka. Og það má alveg segja það upphátt. Ef við ætlum að fara eftir siðfræði Gamla testamentisins þá erum við í alvörunni að tala um að lífláta samkynhneigða karlmenn. Það stendur þarna í alvörunni, flettið því upp. Ókei? Allir á sömu blaðsíðu? (Gripið fram í: … kæmi ekki umræðunni við. ) Þetta ætti náttúrlega ekki að koma þessari umræðu neitt við. Mér finnst líka mjög kjánalegt að tala um þetta hér í pontu, eins og ég nefnt það áður í nokkrum ræðum. En eftir stendur að það þarf að ræða þetta vegna þess að þetta þvælist fyrir eins og karlmennska mín þvælist fyrir í þessu máli. Trúarbrögðin þvælast fyrir þegar kemur að siðferðilegum álitaefnum. Þau er ekkert endilega algerlega gagnslaus en þau þvælast fyrir. Þau eru fyrirferðarmikil og ég veit ekki til þess að þau svari neinu í siðfræði, hvað þá vísindum, sem siðfræðin og vísindin ráða ekki við sjálf.

Þetta frumvarp er skrifað út frá vinnu fólks sem sérhæfir sig í mjög erfiðum siðfræðilegum álitamálum eins og t.d. þessu með 22 vikurnar og ýmislegt fleira í þessu máli. Það er ekki eins og fólk hafi bara slumpað á einhverja tölu og sagt: Það er enginn guð til hvort sem er, við getum gert það sem okkur sýnist. Það er ekki þannig. Siðfræði er raunverulegt fag, vísindi eru raunverulegt fag. Þau voru notuð við gerð þessa frumvarps og mér finnst það skipta máli að borin sé virðing fyrir því. Mér finnst mikilvægt að við séum ekki að nota úreltar aðferðir til að útkljá siðferðisspurningar og úreltar aðferðir við að leita sannleikans eða látum þær þvælast fyrir, hvorki í þessu máli né öðrum, eins áhugaverð og þau fræði öll geta verið. Það er alveg rétt sem 3. þm. Suðurk. sagði hér áðan, ég hef mikinn áhuga á trúarbrögðum og skal ræða þau við hvern sem er. En eins og gefur að skilja á ég svolítið erfitt með að líða vel í þessari umræðu af þeim ástæðum sem ég hef nefnt og ætla þess vegna forða mér af sviðinu hið snarasta.