149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp og taka þar með afar mikilvægt skref sem er löngu tímabært. Það skref er að mínu viti grundvallaratriðið í þessu frumvarpi. Við erum sem samfélag að taka ákvörðun um að það sé réttur kvenna að taka ákvörðun um eigin heilsu, eigið líf og eigin líkama. Það er aðalatriðið í málinu og fyrir mér eru öll önnur álitaefni sem kynnu að vera í frumvarpinu í rauninni bara á allt öðrum stað. Þetta er grundvallaratriðið, hv. þingmenn, reynum að halda umræðunni þar. Ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd fari síðan vel og vandlega yfir þær spurningar og álitaefni sem hafa komið fram í umræðunni í dag, leitist við að svara þeim á sem bestan hátt en horfa ávallt á þetta meginmarkmið lagasetningarinnar.

Ég fagna því jafnframt sem kemur fram í þessu frumvarpi — eða raunar því sem kemur ekki fram í þessu frumvarpi, þ.e. að það sé skilið á milli þungunarrofslöggjafarinnar annars vegar og ófrjósemislöggjafarinnar hins vegar. Það held ég að sé jafnframt mjög mikilvægt skref og þess vegna sérlega ánægjulegt að þessi frumvörp skuli koma fram sama daginn og verði rædd í þinginu nánast í sömu andránni.

Ég fagna frumvarpinu og mun leggja mig allan fram við að tryggja framgang þess í hv. velferðarnefnd.