149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að leiðrétta eða útskýra frekar það sem hún misskilur greinilega gjörsamlega í því sem ég sagði áðan. Ástæðan fyrir því að ég segi að þetta sé þungbært líka þeim sem hafa misst og geta ekki átt börn er sú að ég veit það. Bæði af upplifun og öðru. Og ég veit að það er þungbært konum að taka þessa ákvörðun vegna þess að ég þekki til kvenna sem hafa þurft að gera þetta. Og að ég sé að setja mig í dómarasæti yfir konum með þessu? Ég veit ekki hvaða hugmyndaflug þarf til að snúa svo gjörsamlega út úr því sem ég var að segja.

Að ég sé að vitna til einhvers samviskubits og setja þetta til höfuðs konum? Alls ekki. Það sem ég var að segja var að mér fyndist — og mér finnst — að það eigi að vekja máls á því við konur sem standa frammi fyrir þessari ákvörðun — sem ég veit nota bene að er þungbær, hv. þingmaður, ég veit það, þótt ég sé ekki kona og hafi ekki þurft að taka þessa ákvörðun sjálfur — þá vil ég í hjarta mínu vita af því að fólk viti af öllum kostum sem í boði eru.

Það hefur ekkert með það að gera að innprenta fólki samviskubit eða láta því líða illa með sjálft sig út af þessari ömurlegu ákvörðun sem það þarf að taka.

Eins og ég segi aftur: Það þarf bara töluvert hugmyndaflug til að leggja þennan skilning í mín orð hvað þetta varðar. Þau eru ekki sett fram í því skyni, nema síður sé, þau eru sett fram af virðingu fyrir því fólki. Ég er náttúrlega orðinn gamall og þess vegna þekki ég töluvert af fólki sem hefur staðið frammi fyrir þessari ákvörðun og ég veit hvaða áhrif það hefur og hvaða áhrif það hafði og ég veit hversu þungbært það var.