149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég er greinilega ekki mjög skýrmæltur í dag, ég er það kannski aldrei, en ég lýsti hvergi í máli mínu andstöðu við þetta frumvarp. Ég lýsti hvergi í máli mínu andstöðu við frumvarpið sem heild. Ég lýsti einmitt í ræðu minni að það væri örugglega kominn tími til þess að lagfæra hér rúmlega 40 ára gamla löggjöf.

Í tilefni af orðum hv. þingmanns um það hvort þetta snerist bara um vikur tók ég það til í ræðu minni að mér fyndist kannski vel í lagt að við stykkjum í einu vetfangi tíu vikur fram fyrir næstu Norðurlönd, af því að það var vitnað til þróunarinnar í nágrannalöndunum. Þess vegna setti ég þetta fram.

Og jú, ég lýsti þeim vilja mínum líka í ræðunni að taka málefnalega umræðu um einmitt þau atriði. Ég er til í, eins og ég lýsti yfir í ræðunni, að ég hélt, að taka málefnalega umræðu um eiginlega hvað sem er í frumvarpinu, alla kosti þess og galla. Eins og ég sagði undir lok ræðu minnar áðan er það skylda okkar fyrir þann hóp sem þetta frumvarp snertir að við vöndum okkur og það verði hér lagasetning sem er vönduð og góð.

Þannig að, hv. þingmaður, ég er meira en til í að taka málefnalega umræðu um þetta frumvarp og kosti þess og galla.