149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Hvað varðar þingmenn sem töluðu fyrr í dag verður hv. þingmaður að tala við þá um það sem þeir sögðu, ekki við mig. En það er þannig með öll mál sem við tökumst á um í lífinu að þau dýpka og þau batna ef við tökum heiðarlega og hreinskiptna umræðu um þau. Þetta er eins og í denn þegar maður var að vinna skólaverkefni í hóp, meiri og dýpri umræða um verkefnin bætti þau alltaf um síðir þó að menn rifust um tíma hressilega og allt það. Það er eins með þetta mál og mörg önnur og flest önnur sem við ræðum í þinginu, það er um að gera fyrir okkur að ræða þetta mál opinskátt og af hreinskilni með virðingu fyrir skoðunum hvert annars, hvort sem þær lúta að því að sá tími sem um er rætt verði styttur, hvort sem það er um að mönnum, eða konum sérstaklega, sé gerð grein fyrir því að fleiri kostir eru í stöðunni. Hvaða leið sem við viljum fara finnst mér um að gera að við hlustum hvert á annað. Það getur ekki annað en bætt málið þegar upp er staðið.