149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Maður fer að lýsa eftir þverpólitísku samstarfi þessarar ríkisstjórnar sem svo oft er talað um á hátíðarstundum en ekki höfum við orðið vör við það enn þá hjá minni hlutanum. Raunar virðist sem ríkisstjórnin leiti beinlínis uppi átök þar sem friður er í boði. Hér hefur ítrekað verið boðið upp á að leysa þetta mál varðandi samgönguáætlun, sem er risavaxið mál fyrir þjóðina alla, í víðtækri sátt í þinginu, ef bara er vandað til verka. En á slíkri vandvirkni hefur þessi ríkisstjórn engan áhuga. Það er sennilegast vegna þess að hún vill ekki ræða hvað þær skattahækkanir, veggjöld, sem hér er verið að boða, fela í sér fyrir almenning í landinu og ekki hvað síst íbúa suðvesturhornsins, skattahækkanir sem eru margfaldar á við (Forseti hringir.) áformaðar kolefnisgjaldshækkanir sem sömu flokkar mótmæltu svo hatrammlega. Hér eru áform í veggjöldum sem tveir af þremur (Forseti hringir.) ríkisstjórnarflokkum sögðu fyrir kosningar að kæmi (Forseti hringir.) ekki til greina að stofna til. En nú má ekki einu sinni (Forseti hringir.) ræða þetta mál.