149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að vitna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum. Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi. Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu fyrir verkefnum. Veggjöld geta örugglega verið góð, en við gerum ekki kerfisbreytingu, þar sem við ætlum að gjörbylta skattheimtu af umferð í landinu, snúa við blaðinu, á nokkrum seinni pörtum eða næturfundum á Alþingi. Til þess þarf yfirvegun. Til þess þarf að horfa til áforma ríkisstjórnarinnar og fagurra orða í stjórnarsáttmála. Ef farið væri eftir þeim, ja, þá væri gaman að lifa.