149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það eru tveir dagar síðan meiri hlutinn sýndi á spilin í þessu máli. Málið er algjörlega vanbúið og hefði þurft vandlega yfirferð af hálfu meiri hlutans og nú í kvöld fáum við að sjá það sem meiri hlutinn segir að sé endanleg ákvörðun sem meiri hlutinn allur standi að baki. Hér er stórfelld skattheimta á íbúa suðvesturhornsins sem ekkert hefur verið rædd. Sjálfstæðisflokkurinn segist vera búinn að ræða þetta við 1.000 manns í Valhöll, en mér telst til að þá séu liðlega 350.000 manns sem á eftir að kynna þetta mál fyrir. Það er allnokkuð.

Í þessum áformum er algjörlega óljóst hvernig staðið verður að fjármögnun á ríkisframlagi fyrir borgarlínu. Það er algjörlega óljóst hvernig staðið verður að nokkurri stofnvegaframkvæmd á suðvesturhorninu, ekki stafkrókur á blaði um það í raun og veru hvernig það verði útfært og algjörlega óljóst hvort takist að fjármagna það yfir höfuð. Svona (Forseti hringir.) er okkur ætlað að klára þessa samgönguáætlun. Þetta er fúsk, herra forseti.