149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Maður lærir smátt og smátt að öðlast smáhúmor fyrir vitleysunni sem gengur stundum á hérna. Í morgun heyrðum við ræðu frá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni um virðingu Alþingis, hann kom í pontu og talaði um að fólk ætti ekki að vera í gallabuxum í þingsal. Ég ætla ekki að vitna beint í það sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði á þessum fundi áðan, en ég ætla að segja frá því hvernig hann var klæddur. Hann var í jakka og hann var með bindi og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom hingað í pontu í morgun í jakka og með bindi, sem tákn um virðingu Alþingis. Í kvöld tekur starfandi formaður, hv. þm. Jón Gunnarsson, upp á því á miðjum nefndarfundi að ganga út af fundinum og taka símann, allt í lagi, maður skilur það svo sem, og tilkynnir fjölmiðlum hvernig nefndin hyggist fara með málið. Nefndarmenn komast að því með skilaboðum inni á fundinum sjálfum. Og svo tala þessir menn um virðingu Alþingis. Þetta er bara til hugleiðingar, bara til að hafa eitthvert smáaðhlátursefni hér á bæ gagnvart virðingu þingsins. Hvílíkt rugl.