149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:51]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég á eiginlega bágt með að trúa því að þingflokkur Vinstri grænna leggi blessun sína yfir slík vinnubrögð og ég vona innilega að svo sé ekki. Vandamálið er einmitt að við vitum ekkert hvað er að fara að gerast. Við í minni hlutanum vitum ekki hvað ríkisstjórnin ætlar sér í málinu af því að allir eru með mismunandi svör. Þetta verður að komast á hreint. Það eru þrír dagar eftir af þessu þingi. Við verðum að fá að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í málinu.

Ég sé að nokkrir þingmenn Vinstri grænna sitja hérna og hlusta. Eru þeir ekki til í að koma og segja okkur hvort þeir leggi blessun sína yfir svona vinnubrögð, að það komi risastórar breytingartillögur við samgönguáætlun, breytingar sem muni hafa áhrif á skattlagningu almennings, og það eigi bara að drífa þetta í gegn? Er það eitthvað sem hv. þingmenn samþykkja?