149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að við getum einfaldlega ekki sæst á þá kröfu stjórnarinnar að málið verði klárað á þremur dögum. Ég horfði á hv. starfandi formann umhverfis- og samgöngunefndar í fréttum þar sem hann talaði um að engin ástæða væri til að bíða með málið vegna þess að búið væri að ræða það í þaula síðan í september, að búið væri að kalla ótal manns á fundi þannig að okkur væri ekkert að vanbúnaði, við gætum klárað það á tveimur, þremur dögum. Það væri ekki skilvirkt þing sem ekki gæti gert það. Þetta mál minnir mig pínulítið á söguna um hamarinn þar sem var búið að skipta tvisvar um skaftið og þrisvar um hausinn. Þá er spurningin: Er þetta sami hamarinn? Er þetta nýr hamar eða gamall hamar? Þetta mál snýst um það. Og ég ætla að koma aftur upp.