149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ef menn halda því fram að hægt sé að klára þetta mál á þremur dögum, sem virðist vera það sem starfandi hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Jón Gunnarsson, leggur áherslu á, þegar málið er gjörsamlega breytt — algjörlega ný tegund af gjaldtöku til að byggja upp vegakerfi okkar er lögð til í nefndaráliti án þess að nokkrar umsagnir um það atriði hafi borist inn í umhverfis- og samgöngunefnd — þurfum við bara að halda áfram að tala hér þangað til það mál er raunverulega upplýst. Við þurfum að vita hvað sveitarfélögum finnst, þeim 71 aðila sem sendi inn umsagnir um málið eins og það var áður. En nú er verið að breyta því með áliti umhverfis- og samgöngunefndar og við munum þurfa að tala um málið þangað til það er nógu vel upplýst. Það eru ýmsar mismunandi fléttur af því. Landsmenn virðast ekki vilja veggjöld sem stendur. Það gæti verið að þeir kæmust að þeirri niðurstöðu að þeir vilji vegtolla. En við erum ekki komin þangað og það er ekki fyrr en það er vel upplýst í samfélaginu sem við getum leyft okkur að hleypa því út úr þinginu. Ef við þurfum að tala áfram (Forseti hringir.) um þetta á þingi til að það gerist gerum við það. Það er ábyrgt (Forseti hringir.) í lýðræðissamfélagi að hleypa ekki svona máli óútræddu (Forseti hringir.) frá Alþingi.