149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Menn eru stóryrtir í ræðustól Alþingis og saka undirritaðan um einhvern yfirgang og frekju í þessu máli. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem þau sjónarmið eru viðruð hér í salnum. — Þá hlær hv. Píratinn. Þetta skemmtir þeim og það er kannski það sem þeir eru að reyna að gera, að skemmta skrattanum með þessari uppákomu hér.

Auðvitað er þetta mál búið að hljóta ítarlega umræðu. Það er hægt að snúa út úr allri málsmeðferð í þinginu. Búið er að funda með nánast öllum sveitarfélögum á landinu eða fulltrúum þeirra. Búið er að funda með öllum samtökum sem að þessum málum koma og nánast undantekningarlaust hefur þessi leið verið rædd við menn, hvort þeir gætu hugsað sér að flýta framkvæmdum með því að fara þá leið. Þetta hefur verið í samfélagslegri umræðu í langan tíma og var sett fram í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Meiri hlutinn er sammála á grundvelli þeirrar málsmeðferðar að stíga inn í umrædda leið og útfæra hana. Það hefur verið til umræðu í nefndinni núna, sennilega í tvær vikur. Menn hafa verið að vinna að því. Þetta er nú öll frekjan og yfirgangurinn í undirrituðum, eða meiri hlutanum, af því að það vill svo til að við erum saman í þessu í meiri hlutanum, (Forseti hringir.) þetta er ekki bundið við eina persónu enda getur engin ein persóna (Forseti hringir.) keyrt mál í gegn í þinginu.

Talandi um dónaskap, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, held ég að hann hafi endurspeglast í ræðum þeirra áðan, en ég hef ekki náð að hlusta á allar, en þær (Forseti hringir.) sem ég hef hlustað á eru frá mönnum sem (Forseti hringir.) hafa ekki setið þessa nefndarfundi í haust.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk en lítur svo á að umræða um fundarstjórn forseta sé tæmd að sinni.)