149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við bíðum enn svara og sitjum svo undir skömmum fyrir að vera ekki alveg nógu kurteis í beiðnum okkar um að fá einhvers konar útskýringar á því hvernig standi til að klára þetta þing. Að við skulum dirfast að afþakka það að fá í sjónvarpsfréttum einhverjar fabúleringar hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar um hvernig eigi að ljúka málinu frekar en að það sé rætt beint við okkur, sem höfum verið að kalla eftir svörum. Við köllum enn eftir skýrum svörum um það hvað standi eiginlega til hérna en það virðist enginn vera búinn að ákveða sig í þeim efnum. Ég er satt best að segja, herra forseti, orðin mjög þreytt á því ástandi. Við höfum spurt í fleiri daga hvort þetta standi virkilega til og það er kominn tími til þess að einhver á stjórnarheimilinu ákveði sig. Ætla þeir að þröngva samgönguáætlun í gegnum þingið enn eina ferðina án samráð, stórri áætlun sem er gjörbreytt frá upphaflegri framlagningu, eða (Forseti hringir.) ætla þeir að bíða og freista þess að ná meiri sátt í þetta sinn?