149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Talandi um tíma þá langar mig til að rifja upp svipaðar athugasemdir sem ég gerði við fjárlagaumræðuna, þ.e. í starfsreglum fastanefnda segir að minni hlutinn eigi að fá að jafnaði eigi skemur en tvo daga til að klára nefndarálit sitt. Það er eftir rétt ferli þar sem mál hafa farið í gegnum allt umsagnarferlið og fengið eðlilega þingmeðferð, þá eigum við að fá ekki minna en tvo daga til að skila inn nefndaráliti um viðlíka mál.

Í þessu tilfelli fáum við alveg gjörbreytta samgönguáætlun með viku fyrirvara þar sem lokaniðurstaðan kom loksins fyrir nokkrum klukkutímum síðan. Að sjálfsögðu þurfum við a.m.k. tvo daga til að vinna minnihlutaálit okkar hvað samgönguáætlun varðar (Forseti hringir.) ef hún á að hafa þetta útlit. Ef hún er óbreytt frá því að hún var lögð fram með þeim umsögnum sem um hana bárust er það náttúrlega miklu minna mál.