149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Málþóf snýst um það að tala hérna. Við getum gert það, í 2. umr. getum við talað í fimm mínútur aftur og aftur. Það er það sem gerir okkur heimilt að stunda málþóf. En málþóf er ekki stundað nema forseti þingsins sé fyrst búinn að setja mál á dagskrá sem er algerlega ljóst að landsmenn vilja ekki, sem ekki er búið að vinna faglega o.s.frv. Það er akkúrat þá sem málþóf virkar. Þegar málþóf er í gangi finnst öllum það leiðinlegt, meiri hlutanum finnst það leiðinlegt, minni hlutanum finnst það leiðinlegt, þjóðinni finnst það leiðinlegt. Það finnst öllum það leiðinlegt. Þannig að sá sem hefur réttmæta ástæðu til að standa hérna uppi og passa upp á að vilji þjóðarinnar sé virtur vinnur málþófið.

En það er líka annað sem gerir það að verkum að málþóf eru erfið. Meiri hlutinn fer yfirleitt bara í frí. Minni hlutinn þarf að standa hérna og standa í málþófinu. Það er hægt að snúa því við. Minni hlutinn getur farið í jólafrí, það er fjölskyldufólk og svoleiðis. Nokkrir standa hérna — og ég væri tilbúinn að gera það — (Forseti hringir.) úr öllum flokkum. Við stöndum hérna og stöndum í málþófi til að tefja (Forseti hringir.) þetta mál sem forseti heldur áfram að setja á dagskrá. Svo köllum eftir því að kosið sé (Forseti hringir.) um að málið fari út af dagskrá sem þýðir að hóa þarf í alla stjórnarþingmenn í upphafi næsta fundar þannig að þeir komast ekki í frí. (Forseti hringir.) Við snúum því við og þjóðin er varin (Forseti hringir.) gagnvart þessum tillögum fram á næsta ár.