149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það hefur verið kallað eftir samkomulagi um þetta mál af hálfu minni hlutans. Við því hefur í engu verið orðið heldur tilkynnt að ætlun meiri hlutans sé að keyra málið í gegn fyrir þingfrestun. Maður veltir auðvitað fyrir sér þegar kemur t.d. að ábyrgri ráðstöfun opinbers fjár, að hér sé verið að taka ákvarðanir sem þessar. Við fáum síðustu útgáfu í hendurnar núna, sennilega þá þriðju í dag, af því hvar þetta mál er statt, þ.e. hversu skýrt það liggur fyrir þinginu.

Það liggur fyrir að verið er að auka verulega í framkvæmdir sem við getum sjálfsagt flest vel fagnað, en hvaða forgangsröðun er lagt upp með? Hvernig kemur það út varðandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar? Það rýfur ramma hennar væntanlega talsvert. Hvernig kemur þetta út þegar kemur að forgangsröðun verkefna? Svona mætti lengi telja. Enn og aftur hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að það þurfi að klára í einhverjum flumbrugangi (Forseti hringir.) á tveimur til þremur dögum. Það er nægur tími til að vinna þetta mál strax eftir áramótin, (Forseti hringir.) vinna það þannig að sómi sé að fyrir þingið.