149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er gott að hafa menn sem kunna fundarsköpin hér í salnum. En ég vildi upplýsa hv. þingmenn um það að formenn flokka á Alþingi áttu fund um þetta mál og stöðu þess í þinghaldinu klukkan fimm í dag. Þar fóru formenn allra flokka og fulltrúar yfir sjónarmið sinna flokka í málinu. Það vantaði að vísu einn formann á fundinn og það var auðvitað miður, náðist ekki í hann. En ég vildi greina þingheimi frá því að ég hef í hyggju að boða formenn flokka til fundar síðar í kvöld til að ræða þetta mál áfram. Það léttir kannski einhverjum áhyggjum af þingmönnum um að ræða þennan lið undir fundarstjórn forseta í ljósi þess að ég hef í hyggju að ræða þetta áfram við formenn í kvöld og taldi satt að segja að málið væri í því ferli að nýjar ákvarðanir yrðu ekki teknar um stöðu málsins fyrr en formenn hefðu aftur komið saman.