149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vekja athygli á því að nú er að ljúka eða farið að halla á síðari hluta hálftímalotu af umræðum um fundarstjórn forseta. Þar áður, fyrir einni efnislegri ræðu um það málefni sem er á dagskrá, var önnur svona hálftímalota. Í þessari lotu hefur verið látið skína í málþófsvopnið og hv. þm. Jón Þór Ólafsson lýsti því fjálglega hvernig hann hygðist beita því málþófsvopni.

Ég veit ekki hvort menn halda að það hjálpi til við að finna lausn á málinu að gera þetta á þennan hátt, en ég efast þó um það. Ég held að málið sem vekur þessa umræðu, samgönguáætlunin, verðskuldi fyllilega að koma til umræðu í þingsal og ég vona að það verði fyrir jólin. Við eigum eftir að sjá hvernig við högum dagskrá næstu daga í þinginu. (Forseti hringir.) Ég upplifi það þannig að hér sé rík þörf hjá þingmönnum til að komast í umræðu um það málefni og vonandi verður það frjórra en umræðan um fundarstjórn forseta.